146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[15:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að gera tilraun til þess að loka þessari umræðu með því að segja nokkur lokaorð í þessari umræðu um málið.

Það er mat mitt að fordómar gegn konum í dómskerfinu séu djúpstæður vandi. Því er ekki sérstakt tilefni til þess að leyfa sér að vona að hið besta gerist, að inngróin karlasjónarmið innan dómskerfisins, sem sagt varðandi hæfnismat á dómaraumsækjendum, fjúki burt sisvona án skýrrar lögfestingar um skyldu dómsvaldsins, þar á meðal valnefndarinnar, til að lúta jafnréttislögum.

Konur sem valdar eru í valnefndina af valdakörlum í þessu kerfi geta verið í vanda staddar. Hunsun dómsvaldsins á jafnréttislögum og meginreglum stjórnsýsluréttar og sú staðreynd að fordómar gegn konum hafa liðist innan þess svo árum skiptir er birtingarmynd mun stærri vanda, þ.e. óvandaðra stjórnarhátta þar sem geðþótti og misbeiting opinbers valds er í boði hjá innviðum dómsvaldsins án ábyrgðar. Við slíkar aðstæður getur besta fólk, þar á meðal konur, þurft að velja sína slagi í nefndum og ráðum dómsvaldsins. Við slíkar aðstæður veigra kvenlögfræðingar sér jafnvel við að opinbera eða ræða jafnréttisvandann í dómskerfinu og lögmannastéttinni þar sem þær telja réttilega að það geti bitnað á framgangi þeirra og stöðuveitingum. Það er umtalað bak við lokaðar dyr.

Talað er um að fólk eigi að stíga varlega til jarðar og gæta sín á því að vera ekki öfgafullt. Þess vegna er nauðsynlegt að löggjafinn taki af skarið og gefi skýran tón en mjálmi ekki bara í nefndaráliti eins og það sé einhver neðanmálsgrein að það beri að fylgja jafnréttislögum.