146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[15:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með framkomna tillögu, þ.e. að hún sé lögð fram, og þá áherslu sem hæstv. ráðherra leggur á þessi mál með því að koma svo snemma fram með þetta mál eins og hún kom vel að í sínu máli. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í einhver atriði í þessu. Ég mun svo kannski koma inn á fleira í ræðu minni hér á eftir. En fyrst ég hef tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra beint langar mig að spyrja, því hér segir varðandi innviði að stefnt skuli að því að raftengingar sem fullnægja raforkuþörf til almennrar starfsemi skipa í höfnum verði aðgengilegar fyrir 2025, hversu langt það verkefni er komið og hversu mikið það er unnið í samvinnu við þá aðila sem sjá um raforkukerfið, Landsnet. Það er ekkert launungarmál að það að leggja línur hefur ekki reynst einfalt. Oftar en ekki endað fyrir dómstólum.

Hæstv. ráðherra talaði um að það þyrfti að setja sér metnaðarfull markmið en þó raunhæf. Kannski er það ósanngjarnt að biðja hæstv. ráðherra um svo viðamikið svar sem mig þó langar að reyna, en ég spyr hvernig þessi stefna rími við aðrar stefnur sem eru annaðhvort við lýði eða þá í farvatninu, hvort það hafi verið horft heildstætt á þetta í tengslum við rammaáætlun, í tengslum við kerfisáætlun Landsnets. Ég mun vonandi sem fyrst eiga orðastað við ráðherra um pólitíska stefnumótun þegar kemur að línumálum. (Forseti hringir.) Hvernig rímar þetta allt saman og hefur þetta verið lesið saman?