146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[15:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Já, takk. Fyrst örstutt um nefndina. Málið hefur áður verið sent til atvinnuveganefndar. Atvinnuveganefnd getur auðvitað óskað eftir umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd. Ég vil bara segja almennt og auðvitað í þessu máli að þetta kallar á samvinnu beggja nefnda. Ég vona að menn vinni málið þannig. Þetta er síðan partur af loftslagsverkefninu, þannig er tenging líka í umhverfisráðuneytið og umhverfisnefnd sömuleiðis.

Skattheimtan er ekki hluti af vegtollaumræðunni heldur snýr þetta að því að við erum auðvitað með hvata í dag, þeir sem kaupa t.d. rafknúinn bíl greiða ekki sömu gjöld og þeir sem keyra á bensínbílum. Það þýðir að ef við ætlum að fjölga rosalega rafbílum greiða færri og færri hin gjöldin sem við nýtum til að byggja upp vegakerfið. Þess vegna kallar þetta á að við endurskoðum þá heildarmynd. Sú vinna er í gangi í fjármálaráðuneytinu. Þetta skýrist af því. Ef við boðum breytingar á myndinni og mögulega breyttan veruleika þurfum við líka að endurskoða alla gjaldtöku til að geta haldið áfram að byggja upp vegi.