146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ítreka ánægju mína með að þetta mál skuli koma snemma hingað inn frá hæstv. ráðherra. Ég get ekki annað en lýst ánægju minni með orð hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar um góða samvinnu og að finna samvinnuvettvang á milli atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Að einhverju leyti er Ásmundur Friðriksson sjálfur sá samvinnuvettvangur, sitjandi í báðum nefndum. Ég treysti því að hann tali fyrir hagsmunum okkar umhverfisverndarmanna og treysti honum vel til þess innan atvinnuveganefndar. Einnig gat ég ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þar á bæ væri líka ánægja með þá hugmynd.

Þetta er víðfeðmt plagg. Annað væri nú. Það er ansi margt hér undir, orkuskipti í samgöngum. Líkt og hæstv. ráðherra fór yfir byggir þetta á plaggi sem var lagt fram á síðasta þingi. Hér er mikið vitnað í skýrslu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um orkuskipti í samgöngum sem lögð var fram á þinginu 2014–2015. Ég hefði kosið að í þessu plaggi væri meira um að búið væri að uppfæra tölur. Mér sýnist að á mörgum stöðum sé vísað til umræddrar skýrslu þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá þinginu 2014–2015. Þó er aðeins búið að uppfæra tölur eins og varðandi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum. Ég hefði haldið að það ætti að vera þannig að við gætum bara fengið án mikilla vandkvæða tölur yfir hvernig skiptingin væri núna á milli ýmissa flokka og fleira.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari mínu hér áðan hvort þetta væru raunhæf markmið, hvort það væri gerlegt að koma upp raftengingum fyrir skip svo dæmi sé tekið fyrir þennan tíma. Ég vona að þau markmið sem hér eru sett náist. Mér hefur af og til á undanförnum árum í umræðum um umhverfismál, eins og ég tel þetta fyrst og fremst vera, þótt að það skorti á að við tengjum samþykktir í þeim efnum við samþykktir á öðrum sviðum. Þannig tali ekki alltaf saman það sem við ætlum að gera þegar kemur að umhverfismálum við það sem við gerum á öðrum sviðum.

Hér er t.d. farið yfir það í greinargerðinni að orkuskipti þar sem jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir raforku auki aflþörf í raforkukerfinu. Hér er vissulega ekki verið að leggja til að jarðefnaeldsneyti sé algerlega skipt út fyrir raforku en í greinargerðinni má þó finna athyglisverðar tölur um aflþörfina. Ég vitna í þetta, með leyfi forseta:

„Verði allar samgöngur á landi, þar með talið bifreiðar á vegum ferðaþjónustunnar rafknúnar sem og fiskimjölsverksmiðjur, iðnaður og hafnir er aflþörfin að hámarki 880 MW og sparnaður í losun CO2 1.411.700 t/ári. Nauðsynlegt er að huga að styrkingu flutnings- og dreifikerfisins svo hægt verði að koma til móts við komandi orkuskipti á landi. Þá þarf einnig að vera til staðar nægjanlegt raforkuframboð til að mæta eftirspurninni.“

Hér finnst mér eins og sé í framhjáhlaupi komið inn á þá tvo þætti sem helst gætu kannski valdið því að tímasett markmið í þessum efnum náist illa, þ.e. orkan sjálf, þ.e. orkuöflunin, og hins vegar dreifing hennar.

Ég kom aðeins inn á það í andsvari mínu áðan að það skortir pólitíska stefnu um raforkudreifingu á Íslandi. Ég hef sent fyrirspurn um þau mál til hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að samkvæmt raforkulögum frá árinu 2003 hefur ráðherra borið að leggja slíka stefnu fram á þingi á fjögurra ára fresti. Það hefur aldrei verið gert. Í dag er þetta allt of mikið í höndum þess fyrirtækis sem um þetta vélar, sem stendur þannig í fararbroddi fyrir því hvernig eigi að dreifa orkunni, auðlindinni okkar, án þess að fyrir liggi pólitískur vilji stjórnvalda. Öfugt við það sem við þekkjum frá Norðurlöndunum þar sem eru einfaldlega bara samþykktar stefnur þar um.

Í þessari tillögu til þingsályktunar og greinargerðinni sem fylgir eru gríðarlega margir jákvæðir punktar. En ég óttast, eins og ég kom inn á, að það eigi eftir að koma þessari hugsun sem hér er, þeim breytingum sem þarf að gera til að þetta verði að veruleika, alls staðar inn í þær ákvarðanir sem við tökum sem tengjast þessu þegar kemur að orkuöflun og raflínum, svo dæmi sé tekið.

Hér er minnst á rafbíla og bíla sem taka, ef ég man rétt, yfir 20 farþega og kveðið sérstaklega á um afslátt. Hér er þetta, með leyfi forseta:

„Skoðað verði að endurgreiða virðisaukaskatt fyrir hreinorkubifreiðar með fleiri en 22 farþega.“

Þetta er vel. Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á eru menn þegar að stíga tilraunaskref í þeim efnum. En ég sakna þess aðeins í þessu og held að plaggið hefði orðið töluvert betra ef við hefðum talað um fyrirbæri eins og borgarlínuna líka. Það eru ákveðin orkuskipti í samgöngum að færa stóran hluta umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu yfir í rafknúna vagna eða lestir. Svo við áttum okkur aðeins á tölunum sem við erum að eiga við hér á höfuðborgarsvæðinu: Ef fjölgunin verður eins og spáð er fram að árinu 2040 gætu breyttar ferðavenjur með borgarlínunni þýtt minni útblástur upp á 100 þús. tonn af CO2-ígildum. Svo það sé sett í samhengi var útblástur CO2-ígilda árið 2014 á öllu höfuðborgarsvæðinu 373 þús. tonn.

Í þá átt að ná því markmiði sem hér eru sett varðandi orkuskipti í samgöngum, sem er m.a. að minnka útblástur, ætti borgarlína að vera hér mjög framarlega og vera, miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar sem hæstv. ráðherra kom inn á áðan, forgangsverkefni að styðja hana.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar við andsvörum mínum áðan. Hún útskýrði ýmislegt fyrir mér sem ég þurfti að fá nánari skilgreiningar á. En ég ætla bara í lokin að brýna okkur til þess, bæði hæstv. ráðherra og okkur hv. þingmenn, að taka svona plagg alvarlega. Hér er talað um að raforkuinnviðir verði til staðar fyrir notkun fiskimjölsverksmiðja, eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á áðan. Það er umtalsvert verkefni að koma upp slíkri tengingu. Þótt við horfum oft á okkur eins og við séum hreinasta og besta land í heimi sem eigum hvað mest af orku er staðreyndin sú að það er víða orkuskortur og ekki alveg ljóst hvernig við ætlum að framleiða orkuna. Um það er deilt. En markmiðin í þessu eru góð. Sum þeirra mættu vera enn róttækari. Hér er t.d. sagt að 20% bifreiða í eigu opinberra aðila eigi að verða vistvæn fyrir (Forseti hringir.) 2020. Stjórnvöld hafa algerlega í hendi sér að setja það markmið ofar og ganga á undan með skýru fordæmi. Best væri náttúrlega ef allir ráðherrabílarnir væru vistvænir á morgun.