146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með að þessi tillaga til þingsályktunar sé komin fram um að reyna að koma orkuskiptum í ákveðið horf sem er þá drifið áfram af ákvarðanatöku og ívilnunum af hálfu ríkisstjórnarinnar. En þó, þegar ég lít yfir hana, er ýmislegt sem slær mig og gerir eiginlega að verkum að ég lít svo á að þessi tillaga sé bara alls ekki nógu framsækin.

Máli mínu til stuðnings bendi ég á að í stefnuramma Evrópusambandsins, um orku- og loftslagsmál til ársins 2030, sem var settur fram 23. október 2014 er eitt af þremur meginmarkmiðum að ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við viðmiðunarárið 1990.

En á bls. 21 í greinargerð tillögunnar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun mun markmið um 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa valda því að notkun jarðefnaeldsneytis verður nálægt því sú sama og árið 1990 og losun gróðurhúsalofttegunda einnig.“

Það sem gengið er út frá í þessari tillögu er að við reynum að ná 40% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa, m.a. í samgöngum, fyrir árið 2030. Það mun skila okkur á þann stað þar sem við getum farið að byrja að vinna í áttina að því að ná fram þeim markmiðum sem voru sameiginlega lögð fram í stefnuramma Evrópusambandsins. Það er eitt af þeim dæmum sem fær mig til að halda að þetta nái alls ekki nógu langt eins og þetta stendur. Í raun eru margar góðar tillögur þarna inni en við verðum líka að bera þetta saman við önnur lönd. Í Noregi hefur meðal annars verið rætt um að 100% af öllum nýjum bílum sem eru seldir keyri á endurnýjanlegri orku fyrir árið 2025. Það þætti mér framsækið, það þætti mér eftirsóknarverð nálgun.

Það er ýmislegt sem styður þá notkun. Í dag eru að vísu ekki margar bifreiðategundir sem keyra á rafmagni en ljóst er að orkuþéttleiki í rafhlöðum er að aukast mjög hratt. Það gefur okkur ákveðna von. Samhliða því eru fleiri bifreiðaframleiðendur að framleiða bíla sem ganga fyrir hreinni raforku. Að vísu skýtur svolítið skökku við að í tillögunni eru menn svolítið hallir undir metanbíla og jafnvel bíóetanólbíla og þess háttar sem ég held að á þessum tímapunkti sé óhætt að segja að hafi tapað í hugmyndastríðinu um hver skuli vera hinn endanlegi vistvæni orkugjafi. Það er kannski of snemmt að segja þetta en alla vega myndi ég segja að gagnvart bílum sé það tilfellið.

Sömuleiðis má tala um atriði sem varða raforkukostnað. Raforkuframleiðsla á Íslandi hefur lengi þótt mjög góð og ódýr. Mig minnir að gengið sé út frá því að heildsöluverð sé í kringum 36 kr. á megavattstund. Þetta var alveg rosalega lágt verð fyrir tíu árum en í dag er verið að setja upp sólarorkustöðvar víða um heim sem framleiða sólarorku fyrir í kringum 21 kr. á megavattstund. Það hreinlega þýðir að samhliða þessari aukningu á orkuþéttleika rafhlaðna mun raforkuframleiðsla vera að öllu óbreyttu algerlega ósamkeppnishæf innan tíu ára. Það hefur afleiðingar fyrir þá uppbyggingu í stóriðju sem stendur til og sömuleiðis þá stóriðju sem nú þegar er til staðar.

En ég held að við gætum litið á ýmis tækifæri samt sem áður. Í orkuskiptum felst rosalega mikill efnahagslegur ábati fyrir landið. Það er efnahagslegt atriði að vera ekki að eyða peningum í olíu. Það er óþarfi að fólk sé að kveikja í risaeðlusafa til að komast í vinnuna á morgnana. Við getum sparað okkur tugi milljarða á ári sem fara í að kaupa erlenda olíu með því að hraða þessum orkuskiptum. Sá peningur sem sparast mun að sjálfsögðu nýtast til að hliðra þeim kostnaði sem verður til við viðhald vega ef við höldum því til streitu að binda okkur við að einungis fyrstu 12.500 rafbílarnir hljóti ívilnun heldur bara halda því áfram þangað til 100% nýrra bíla eru orðnir rafmagnsbílar. Það væri, held ég, töluvert betra.

Að auki er annað sem mér þætti gott að kæmi fram í þessari tillögu og það er það að við eigum ekki bara að vera neytendur í þessum orkuskiptum, við eigum ekki bara að neyta þess sem kemur. Það eru ótal tækifæri fyrir nýsköpun. Ef ríkið setti fjármagn í að hvetja til tækniþróunar hérlendis, sem stuðlar með einhverju móti að orkuskiptum, er það atriði sem gæti raunverulega gert Ísland að leiðandi landi, bæði í notkun og framleiðslu og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum, umfram þann góða árangur sem hefur náðst, t.d. í jarðborunum á háhitasvæðum og þess háttar. Það er nefnilega fjölmargt sem raunverulega væri hægt að gera hér, einkum mætti tala um skip. Það að setja rafhlöður sem eiga til að vera pínu vatnsfælnar, hætt við að springa komist þær í tæri við vatn — ef við getum fundið örugga leið til að skipta út olíu í stórum skipum eða jafnvel litlum til að byrja með fyrir góðar rafhlöður er það eitthvað sem við getum verið leiðandi í. Sömuleiðis er fullt af tækifærum, held ég, í flugi.

Að lokum langar mig að víkja aðeins að Larsen C íshellunni sem er á Suðurskautslandi. Árið 2016 myndaðist í henni 131 kílómetra löng sprunga sem er, eftir því sem ég best veit, um 100 metra breið og 500 metra djúp í augnablikinu. Það eru aðeins um 20 kílómetrar eftir ósprungnir áður en íshellan hreinlega losnar frá. Gengið er út frá því að hún muni losna frá Suðurskautslandi á þessu ári. Þegar það gerist mun að öllum líkindum verða til 5 þús. ferkílómetra borgarísjaki sem fer út í sjó og mun væntanlega bráðna þar og getur leitt til allt að 10 sentímetra hækkunar á sjávarmáli jarðar að meðaltali. Þetta er ekki stærsti ísjaki sem hefur myndast enda var sá sem ég held að kallist B2 um 11 þús. ferkílómetrar og hann brotnaði frá Ross-íshellunni árið 2000. Þeir eru ansi margir og þeim hefur farið fjölgandi, þessum stóru íshellum sem eru að losna frá. Þetta er stórhættulegt. Þetta er eitthvað sem getur hleypt umhverfi heimsins í slíka óreiðu að við höfum aldrei séð annað eins áður. Á meðan ég tala um tækifæri og efnahagsleg áhrif þess að flytja ekki inn risaeðlusafa í auknum mæli, eða halda því ekki áfram — og við ættum sannarlega að líta til þeirra hagsmuna sem þjóðin hefur af því að hætta að brenna olíu og af því að þróa tækni sem getur komið í stað hennar og nýta orkuna sem við eigum þó til betur og reyna að stuðla að enn ódýrari orkuframleiðslu — held ég að stærsta atriðið í þessum orkuskiptum, og ástæðan fyrir því að við þurfum að spýta töluvert meira í en er í þessari annars ágætu tillögu, sé það að umhverfi jarðar þolir ekki lengur við. Við erum á hættutímum. Við erum á hættutímum sem eru ekki bara mælanlegir í koltvísýringsmagni í umhverfinu heldur í 5 þús. ferkílómetra borgarísjaka sem er um það bil að fara að renna út í sjó.

Ef þetta er ekki tíminn til að grípa til stórvægilegra aðgerða, töluvert stórvægilegri en eru í þessum annars ágætu fyrirmælum og hugmyndum um orkuskipti, þá veit ég ekki hvað. Þetta er tíminn. Við verðum að gera þetta. Núna.