146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

orkuskipti.

146. mál
[16:31]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans um þetta mikilvæga mál og margt áhugavert kom fram máli hans. Því er sannarlega ekki að neita að mikilvægur eiginleiki bílsins er einmitt hreyfanleiki hans. En það er annað sem ég vildi spyrja þingmanninn um. Það snýr að því, ef ég skil svona í meginatriðum það sem hann sagði um efni þingsályktunartillögunnar, að hann sé sammála þeim markmiðum sem þar koma fram, hvort hann sé ekki líka sammála því samhengi sem þarf að fylgja að orkuframleiðsla í landinu verði til samræmis við þessa áætlun og hvort ekki sé mikilvægt í allri umfjöllun um annað mál, sem er rammaáætlun og þess háttar, um nýtingu endurnýjanlegrar orku og vatnsaflsvirkjana, að tekið sé sérstaklega mið af þeim efnisatriðum sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu.