146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur erum við sammála ég og hv. þingmaður. Ég held að það sé eitthvað sem við getum verið ánægð með að við höfum í þróunaraðstoð okkar að stórum hluta lagt áherslu á að miðla því sem við gerum vel. Hv. þingmaður nefndi tvennt af því. Það er hvort tveggja í Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi jarðhitann. Það er nokkuð sem við höfum verið að kenna víðs vegar um heim mjög lengi. Það verður enn þá meiri eftirspurn eftir því og er mikilvægt að gera það núna m.a. út af því sem hv. þingmaður talaði um og hv. þingmaður Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi hér áðan varðandi loftslagsmálin. Við erum með skóla Sameinuðu þjóðanna í jarðhitamálum. Við erum með skóla Sameinuðu þjóðanna í sjávarútvegsmálum, þótt það hjálpi ekki alveg Georgíu, og skóla í jafnréttismálum, sömuleiðis í landgræðslu. Það skiptir auðvitað máli fyrir okkur þar sem okkur hefur tekist vel til, að við miðlum þeirri reynslu til annarra (Forseti hringir.) þjóða. Ég get ekkert annað sagt en ég er sammála hv. þingmanni.