146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó svo að ég hafi kannski ekki fengið þau skýru svör sem ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra. Spurning mín áðan snerist um þá skuldbindingu sem Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss árétta í samningnum, um að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar að þjóðarétti. Það er gott að sýna gott fordæmi og tala fyrir mannréttindum á alþjóðavettvangi. En spurning mín snerist nákvæmlega um fullgildingu fríverslunarsamnings á milli EFTA-ríkjanna og Georgíu, hvernig við getum stigið inn með skýrum og öflugum hætti og talað og uppfyllt skuldbindingar okkar sem hér er skýrt kveðið á um í þessum samningi, af því að það er svo sannarlega víða pottur brotinn í því landi, eins og ég var að reyna að rekja hér áðan og vitnaði í skýrslu Human Rights Watch.

Ég hefði gjarnan viljað fá (Forseti hringir.) að heyra aðeins skýrar um það, meira en að tala fyrir mannréttindum og sýna gott fordæmi á alþjóðavettvangi. Ég vil því ítreka spurningu mína: Hvernig sér hæstv. utanríkisráðherra það nákvæmlega fyrir sér hvernig við getum beitt okkur?