146. löggjafarþing — 32. fundur,  24. feb. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[17:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig svar hv. þingmaður vill fá, hvernig það getur verið skýrara. Hv. þingmaður þekkir þessi mál mjög vel. Hv. þingmaður veit að við höfum ekki lögsögu í þessum ríkjum. Hv. þingmaður veit það líka að ekki munum við beita hervaldi til að koma þessum hugmyndum í gegn. Hv. þingmaður veit það alveg að við getum gert ákveðna hluti, sem ég vona að ég og hv. þingmaður séum sammála um að við eigum að gera.

Ástæðan fyrir að þetta er nefnt í samningnum er náttúrlega til þess að leggja áherslu á þetta. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt getum við náttúrlega bent á að menn standi ekki við það sem þeir skrifuðu undir. En við getum ekki breytt ástandinu í þessum löndum með valdi, ekki þarna eða annars staðar. Við höfum bara enga stöðu til þess. Jafnvel þó að við segjum að við gerum ekki neina fríverslunarsamninga við eitt einasta land, mun það ekki breyta þeim hlutum í neinum grundvallaratriðum. Reyndar held ég að það hefði slæm áhrif. Ég held að það mundi gera baráttuna erfiðari fyrir þá sem verða fyrir mannréttindabrotum í þessum löndum. Ég segi (Forseti hringir.) bara eitt við hv. þingmann og þingheim: Ég mun beita mér fyrir því eins og ég get, en við skulum alveg átta okkur á því að það er fyrst og fremst í orðum.