146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

sala á Arion banka.

[15:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hægt var að lesa um það í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, fyrir fimm dögum að Kaupþing ynni nú að því að ganga frá sölu á allt að 50% af hlut félagsins í Arion banka í lokuðu útboði til bandarískra fjárfestingarsjóða og hóps íslenskra lífeyrissjóða. Kaupverðið mun nema á bilinu 70–90 milljörðum íslenskra króna sem jafngildir genginu rúmlega 0,8 miðað við bókfært eigið fé Arion banka. Væntingar væru um að þessi viðskipti gætu klárast á næstu vikum, söluandvirðið færi til þess að gera upp 84 milljarða veðskuldabréf sem Kaupþing gaf út til íslenska ríkisins í ársbyrjun 2016. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti formenn stjórnarandstöðuflokkanna um að þessar fréttir ættu a.m.k. við einhver rök að styðjast á fundi í síðustu viku.

Í ljósi þess að hér á eftir að ræða drög að eigandastefnu fyrir fjármálafyrirtækin, og einnig hefur verið óskað eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd um þá stefnu sem gerir ekki ráð fyrir neinni heildarendurskoðun á fjármálakerfinu heldur sölu á nánast öllum bönkunum án nokkurra annarra breytinga, langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra sérstaklega út í þessa sölu Kaupþings á Arion banka sem felur í sér — auðvitað eru verulegir hvatar fyrir þá aðila innan Kaupþings sem fá háar bónusgreiðslur ef tekst að selja hlutinn til einkaaðila á næstunni. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann viti hverjir eru á bak við vogunarsjóðina og að mat hafi verið lagt á það hvort þessir aðilar ætli sér að vera í bankastarfsemi á Íslandi eða hvort um er að ræða skammtímafjárfesta sem hyggjast endurselja hlutinn bráðlega og þá væntanlega með hagnaði. Og hvort lagt hafi verið mat á það hver efnahagsleg áhrif þess eru, annars vegar að þessi hlutur verði seldur á næstunni miðað við það að hluturinn gangi til ríkisins eins og hann ella myndi gera fyrir árslok 2018. Gæti sú aðgerð jafnvel verið efnahagslega hagkvæmari til lengri tíma litið? Telur hæstv. ráðherra að þessi sala komi í veg fyrir að einhverju leyti að hægt sé að endurskipuleggja kerfið í heild sinni?