146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

sala á Arion banka.

[15:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að borist hefur erindi til Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá nokkrum kröfuhöfum eða eigendum slitabús Kaupþings. Gert var ákveðið samkomulag um með hvaða hætti eigendur slitabúsins gætu komið að því að kaupa ákveðna hluti og ég get staðfest að tilboð þeirra er í samræmi við það samkomulag sem gert var, þ.e. verðið er ekki undir genginu 0,8.

Ég hef jafnframt beint þeirri fyrirspurn til Seðlabankans og Seðlabankinn hefur athugað hvort einhverjir aðrir standi á bak við þessi tilboð. Menn telja að svo sé ekki, þetta séu aðilar sem ætli sér að vera í bankastarfsemi hér til nokkurrar frambúðar, en auðvitað geta menn ekki skuldbundið sig um aldur og ævi. Ég taldi afar mikilvægt að vita það hvort þetta væru raunverulega þessir aðilar, sem allir eru erlendir, eða hvort að þarna stæðu t.d. einhverjir íslenskir fjárfestar að baki, en mér er sagt að svo sé ekki.