146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

sala á Arion banka.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þar kom fram að það sé mat stofnana ráðuneytisins og Seðlabankans að það séu ekki neinir aðilar á bak við þá erlendu aðila, þ.e. vogunarsjóði, sem vilja bjóða í Arion banka, og að þeirra fyrirætlan sé þá að reka hér banka til einhverrar frambúðar. Ég spurði hæstv. ráðherra einnig hvort lagt hefði verið mat á það að það gæti verið efnahagslega hagkvæmara að þessi hlutur gengi jafnvel til ríkisins eins og ætlunin er að hann geri fyrir árslok 2018. Hefur verið lagt mat á efnahagsleg áhrif þess miðað við þessa sölu? Auðvitað hvarflar að manni að ætlunin sé að kaupa nú og jafnvel selja á með nokkrum hagnaði væntanlega innan skamms tíma.

Síðan spurði ég hæstv. ráðherra einnig að því hvaða áhrif hann teldi að þessi sala hefði, ef hún gengur eftir, á möguleika ríkisins til þess að endurskipuleggja kerfið. Hér á að ræða eigandastefnuna á eftir, aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka. (Forseti hringir.) Um leið og þessi hlutur hefur verið seldur hefur það væntanlega áhrif á möguleikana til þess að breyta því lagaumhverfi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um mat hans á því.