146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[15:08]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Í ljósi þess að þingið tekur til afgreiðslu á eftir frumvarp um leiðréttingu á breytingu á lögum um almannatryggingar með afturvirkum hætti langar mig að eiga orðaskipti við hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra.

Það er ekki augljóst hvort fyrirhuguð leiðrétting standist stjórnarskrá, sérstaklega með tilliti til afturvirkni laganna, eða geti mögulega varðað bótaskyldu ríkisins gagnvart ellilífeyrisþegum. Það eru mjög sterk rök með því að reyna að halda þessum málum eins svart/hvítum og hægt er og skapa ekki fordæmi sem nýst gætu með óheppilegum hætti og grafið undan réttaröryggi borgaranna. Með það í huga spyr ég hæstv. hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra:

Hvers vegna mælir hæstv. ráðherra ekki sjálfur fyrir þessu máli en lætur þess í stað velferðarnefnd mæla fyrir málinu fyrir sig? Í ljósi þess að rökstuðningurinn fyrir því að setja þessi lög afturvirkt í tvo mánuði er að um augljós mistök löggjafans sé að ræða vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann myndi skilgreina sem augljós mistök í þessu samhengi.

Hver er til þess bær að segja til um hvort um mistök sé að ræða eða ekki? Hvenær er greinargerð í nægilegu ósamræmi við lagatextann sem hún fylgir til að hún styðji það að um mistök sé að ræða og ekki þurfi að fara eftir lögunum?