146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breyting á lögum um almannatryggingar.

[15:10]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hér er einfaldlega um skýrt mál að ræða. Það hefur verið lengi, árum saman, í undirbúningi, þ.e. endurskoðun á almannatryggingum. Það var alltaf ljóst í allri undirbúningsvinnu af hálfu nefndarinnar, almannatrygginganefndarinnar sem vann að undirbúningi þessa máls, að verið væri að einfalda bótakerfið þar sem til kæmi ein skerðingarprósenta á móti öllum tekjum viðkomandi lífeyrisþega. Þess vegna var alveg ljóst að ásetningur löggjafans í þessu máli var algjörlega skýr, hagsmunaaðilum öllum sem að málinu komu í nefndinni, í umsögnum sínum fyrir þinginu, var þessi ásetningur líka ljós og má lesa það út úr öllum umsögnum þeirra að þeim var fyllilega ljóst hvers konar skerðingar ættu að vera.

Það er því alveg augljóst að þarna verða löggjafanum á mistök og í slíkum tilfellum hefur það verið hefð, að því mér er sagt, nú er ég ekki með mörg ár undir belti í mínu embætti, að nefndin taki þá einfaldlega málið til umfjöllunar og taki nauðsynlegar leiðréttingar í gegn.

Ég held að það sé alveg ljóst þegar kemur að umræðu um mögulega bótaskyldu að þá sé rétt að hafa í huga að aldrei á neinum tíma stofnaðist til réttmætra væntinga lífeyrisþega til þessara bóta. Það var alltaf ljóst hver ásetningur löggjafans var, það kemur mjög skýrt fram í öllum gögnum máls á öllum stigum þess í meðförum þingsins.