146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dýraheilbrigði og innflutningur á hráu kjöti.

[15:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég sat fund á laugardag eða míníráðstefnu þar sem sérfræðingar í dýraheilbrigði og lýðheilsu, matvælaöryggi og sýklalyfjum voru saman komnir. Fundurinn var haldinn að frumkvæði fyrrverandi þingmanns, Ögmundar Jónassonar, og var fjallað um áhyggjur manna af því að breytt fyrirkomulag innflutnings á ferskum matvælum, ófrosnum matvælum, gæti leitt til verri stöðu hér á landi. Einnig má benda á grein Margrétar Guðnadóttur, prófessors emeritus í veirufræði, um sama málefni sem birtist í blöðunum í síðustu viku.

Á fundinum komu fram mjög áhugaverðar staðreyndir vísindamanna um að gríðarleg verðmæti fælust í þeirri einstöku stöðu sem annars vegar dýraheilbrigði á Íslandi býr við og hins vegar þeirri staðreynd varðandi lýðheilsu að matvælaöryggi, tíðni matarsýkinga og ekki síst sýklalyfjaónæmi væri með því lægsta eða langlægst í heimi. Norðurlöndin standa sig býsna vel en Ísland er fremst í flokki hvað þetta varðar.

Ég hef beðið um fund í atvinnuveganefnd um þetta málefni og hefur hv. þm. Óli Björn Kárason einnig óskað eftir því, en hann var þarna á fundinum. Það gerum við í ljósi þess að endurskoðun búvörusamninga stendur til og útfærslubreytingar á innflutningskvótum. Fyrir dómstólum er að kröfu heildsala verið að fjalla um bann við kröfu um 30 daga frystingu á innfluttu kjöti.

Því vil ég spyrja ráðherra hvort hún taki þessi sjónarmið alvarlega, deili áhyggjum vísindamannanna á þessari stöðu og hvort þessi sjónarmið eða jafnvel þessir sérfræðingar verði teknir inn í vinnu ráðuneytisins við útfærslu á reglum ef bregðast þarf við.