146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dýraheilbrigði og innflutningur á hráu kjöti.

[15:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst leitt, og ég sagði vini mínum, Ögmundi Jónassyni, frá því, að ég skyldi ekki geta komið á þennan fund, en ég sendi fulltrúa mína til að fylgjast vel með málinu. Það er tilefni til að fylgjast mjög vel með því sem tengist matvælaöryggi, sem tengist íslenskri sérstöðu, framúrskarandi matvælum sem við höfum, ekki að ástæðulausu, byggt upp hér innan lands.

Ég deili um margt skoðunum hv. þingmanns um leið og ég segi: Já, við fylgjumst vel með málinu. Við munum setja matvælaöryggið í fyrirrúm nú sem endranær. Við munum hlusta á sérfræðinga og ráðleggingar þeirra. En ég segi um leið: Við eigum líka að stíga varlega til jarðar, við eigum að stuðla að því að umræðan verði upplýst, yfirveguð og án þess að hræðsluáróður verði settur á dagskrá.

Með þessu er ég ekki að segja að það sem hefur komið fram sé hræðsluáróður. Ég undirstrika að við eigum að taka mark á sérfræðingum. Það eru skiptar skoðanir. Í ráðuneytinu eru skýrslur sem ég á eftir að kynna mér, sem hv. þingmaður þekkir, og byggja á skýrslu sem var gerð af hálfu nýsjálenskra aðila sem hafa haft reynslu af innflutningi eða ekki innflutningi á matvælum, kjöti. Ég mun kynna mér hana nánar eins og þær skoðanir sem aðrir mikilvægir sérfræðingar í þessum málum hafa sett fram.

Við þurfum eftir sem áður að hafa hagsmuni bænda, hagsmuni neytenda, hagsmuni umhverfis og hagsmuni náttúru og dýraverndar að leiðarljósi í þessu. Við þurfum að passa upp á að eftirlitsreglur séu skýrar og skilmerkilegar og skili því til neytenda og til bænda sem við ætlumst til af þeim, þ.e. að við byggjum hér upp regluverk sem verður til þess að við verðum áfram með framúrskarandi matvælaframleiðslu hér á Íslandi, græna matvælaframleiðslu.