146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dýraheilbrigði og innflutningur á hráu kjöti.

[15:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að ráðherrann taki undir að þetta séu grafalvarlegir hlutir. Þróunin varðandi sýklalyfjaónæmið er mjög hröð og það er ekki hræðsluáróður. Það eru staðreyndir sem vísindamenn um allan heim leggja á borðið. Ég hvet ráðherrann til að kynna sér innflutningshömlur Nýsjálendinga á því hvað flytja má inn í það land og eins til Ástralíu vegna dýraheilbrigðis á þeim eyjum. Ísland er líka eyja.

Þarna töluðu óháðir sérfræðingar sem voru algjörlega óháðir, höfðu enga hagsmuni af því að verja núverandi kerfi eða breyta kerfinu og flytja hér meira inn. En ráðherrann tók nokkra aðila út úr í endurskoðunarnefndinni, þar á meðan títtnefndan Ögmund Jónasson, sem barist hefur fyrir neytendamálum hér á þingi en ekki síður sem formaður BSRB, og setti í staðinn félag atvinnurekenda, sem er félag heildsala, sem er félag hagsmunaaðila.

Nú langar mig að spyrja ráðherrann: Trúir ráðherrann því að heildsalar séu fulltrúar neytendasjónarmiða (Forseti hringir.) í endurskoðun á búvörusamningum og innflutnings á kjöti til Íslands í samkeppni við innlenda framleiðslu?