146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dýraheilbrigði og innflutningur á hráu kjöti.

[15:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Já, að því leyti til greinir okkur á, mig og hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson, að ég taldi mikilvægt að koma til móts við nákvæmlega þau sjónarmið sem atvinnuveganefnd þingsins setti fram í áliti sínu varðandi búvörusamningana, þ.e. að það þyrfti að höfða til breiðari hóps en nú hefur verið eða síðasti ráðherra samþykkti. Ég tók ábendingum og leiðsögn frá hv. atvinnuveganefnd mjög alvarlega og skipaði að hluta til nefndina upp á nýtt. Ég verð þá bara einfaldlega að búa við það, ég tel mikilvægt að nefndin endurspegli breiðari sjónarmið en komu fram af hálfu þáverandi ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórn. Ég treysti öllum þeim sem eru í endurskoðunarnefndinni, 13 einstaklingum, til að stuðla að því markmiði sem ég trúi að allir þingmenn vilji vinna að, þ.e. að stuðla að öflugum matvælaiðnaði, öflugum landbúnaði, grænum landbúnaði til skemmri og lengri tíma. Þar þurfum við að hafa margt í huga, m.a. það að gæta að því hvað við flytjum inn, (Forseti hringir.) hvernig það er merkt, upprunamerkt o.s.frv. Ég held að það sé miklu fleira sem sameinar mig og hv. þingmann en hann grunar.