146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

samgöngumál í Reykjavík.

[15:26]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það er virðingarvert hjá hæstv. ráðherra að leiðrétta málflutning þó svo að það hafi verið afar varfærin leið sem var farin þar. En ég vil líka leiðrétta annað sem kom fram hjá ráðherra í síðustu viku. Hann sagði að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar væru hættulegustu gatnamót landsins. Það eru þau ekki. Þau eru í dag tíundu hættulegustu gatnamót landsins þrátt fyrir að vera ein þau fjölförnustu. Breytingarnar sem skiluðu þessum árangri kostuðu 200 millj. kr. Sá kostnaður er aðeins brotabrot af því sem mislæg gatnamót áttu að kosta. Á sínum tíma var gert ráð fyrir að sá kostnaður yrði 12 milljarðar. Mig langar að spyrja ráðherra aftur: Hefur hann verið í sambandi við borgarstjórn Reykjavíkur um þessi mál síðan hann tók við?