146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breytingar á námslánakerfinu.

[15:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tekið verði upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og lánveitingar LÍN miðaðar við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Hugað verði að félagslegu hlutverki sjóðsins.“

Nú verð ég að fá að inna hæstv. menntamálaráðherra eftir svörum um hvað hann hyggst gera í þessum efnum því að heldur er þunnur þrettándinn á málaskrá hæstv. ráðherra, alla vega nú í vor. Ég vil fá að vita hvað hann hafi í huga. Nú er til dæmis ekki til neitt eitt sérstakt norrænt námslánakerfi. Þau eru jafn misjöfn og Norðurlöndin eru mörg, þar á meðal Ísland. Íslenska lánakerfið er félagslegt námslánakerfi. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann hafi í hyggju. Ætlar hann að flytja mál fyrirrennara síns, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, sem hlaut afleita dóma, svo ekki sé meira sagt, í samfélaginu þar sem öllu félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins var svo gott sem kippt út úr jöfnunni. Verður eitthvert víðtækt samráð haft við hlutaðeigandi? Þarf að gera þetta upp á nýtt? Frumvarp fyrirrennara hans var nú bara mestmegnis unnið inni í stofnuninni sjálfri, Lánasjóði íslenskra námsmanna. Og það eru fleiri hagsmunaaðilar en LÍN þegar kemur að lánasjóðsmálum. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessi vinna verði hafin að því gefnu að hann ætli að gera eitthvað í málunum? Mun hæstv. ráðherra leitast við að miðla einhvers konar sátt í þessum efnum, enda var allt komið í óefni hérna undir lokin þegar kom að Lánasjóði íslenskra námsmanna og breytingum á málefnum hans.