146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

breytingar á námslánakerfinu.

[15:33]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum svörum hæstv. menntamálaráðherra. Það var svo sannarlega margt sem tafði framgang þessa máls enda rík ástæða fyrir því. Það var illa unnið og félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins var kippt út. Það gleður því mig að heyra, ef ég misskil ekki hæstv. ráðherra, að hann hyggist fara í meira samráð þegar kemur að þessum mikilvæga lánasjóði um það hvernig við sjáum framtíðarhlutverk sjóðsins fyrir okkur. Ég vænti þess þá frá hæstv. menntamálaráðherra að farið verði í þetta þverfaglega, það verði fleiri hlutaðeigendur en einungis LÍN. Sömuleiðis þætti mér vænt um að heyra hvort hæstv. ráðherra hefur hug á að koma þverpólitísku samráði þar inn líka. Eða verður þetta einungis unnið með faglegum hagsmunaaðilum? Deilurnar um lánasjóðinn síðast voru nefnilega fyrst og fremst pólitískar. Þær voru fyrst og fremst um það hvort við vildum fara í meiri einkavæðingu og nær bandarísku lánakerfi en norræna velferðarlánakerfinu. Ég spyr hæstv. ráðherra að þessu.