146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigendastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins var á dögunum birt drög að endurskoðaðri eigandastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að í drögunum virðist vera gert ráð fyrir að bankakerfið verði óbreytt til framtíðar. Engin tillaga er um breytt skipulag bankakerfisins til hagsbóta fyrir almennings í landinu, þó er tækifæri til þess einmitt nú þegar ríkið á stærsta hluta bankakerfisins. Mér finnst þetta alvarlegt mál og mótmæli því harðlega að ekki eigi að nota tækifærið til að endurskipuleggja kerfið. Þvert á móti er sala eignarhluta ríkisins boðuð í eigandastefnunni og á allt að selja nema 34–40% í Landsbankanum. Að öðru leyti virðist vera gert ráð fyrir að allar fjármálastofnanir verði eins og haldi áfram í sömu mynd og þær eru í dag og engin merki um að ríkið leggi áherslu á breytta menningu eða siðferði innan kerfisins frá því sem var fyrir hrun. Við horfum á sama bankakerfið og fyrir hrun, sama gjaldmiðil og fyrir hrun, sömu áhættu á herðum almennings og fyrir hrun.

Þegar við ræðum bankakerfið, umfang og þjónustu þess þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn, markaðurinn er lítill og við þurfum að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts. Það er einnig forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun. Vissulega takmarkar lítill markaður möguleika á heilbrigðri samkeppni og möguleika í fjölbreytni. Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er líka eitt sérkenni íslenska hagkerfisins ásamt verðtryggingu. Á meðan svo er setur það okkur líka mörk. Við getum samt þrátt fyrir þetta boðið upp á betri og ódýrari bankaþjónustu en við gerum í dag fyrir almenning.

Það er mikilvægt að ríkið beiti eigandaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri og hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans. Það er mikilvægt að fara í þá vinnu strax.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa frumkvæði að samráði stjórnar og stjórnarandstöðu og fleiri um hvernig væri best að byggja upp bankakerfi hér á landi og líka til að ýta á eftir rannsókn og einkavæðingu bankanna upp úr aldamótum sem var vægast sagt illa heppnuð.

Nú eru vogunarsjóðir líklega að eignast fyrsta eignarhlutinn sem er seldur í banka eftir að samið var við kröfuhafana. Hver er stefnan? Hún virðist vera að festa í sessi sama bankakerfi og fyrir hrun með vogunarsjóði í broddi fylkingar á grunni stefnumótunar hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Þetta stóra mál þarfnast miklu betri undirbúnings. Ég skora á hæstv. ráðherra að vanda betur til verka. Höfuðmarkmið nýs bankakerfis er einfalt. Það verður að geta staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan fjármálakerfisins á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn. Það skiptir miklu máli fyrir hag almennings að fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi verði aðskilin, að almenningur borgi ekki fyrir tap bankanna en ávinningurinn verði einkavæddur.

Frá hruni hafa vissulega verið gerðar breytingar á regluverki og þær eru til bóta, en breyta því ekki að ríkið er í ábyrgð fyrir innlánum viðskiptabankanna og íslenskir viðskiptabankar stunda áhættusama fjárfestingarbankastarfsemi á ábyrgð ríkisins. Þessi vandamál verða ekki leyst nema viðskiptabönkum verði óheimilt að sinna fjárfestingarbankastarfsemi. Fjárfestingarbankar eiga ekki að geta fjármagnað áhættusöm verkefni sín með ríkistryggðum innlánum eins og nú er. Fjárfestar sem njóta alls ávinnings af vel heppnuðum fjárfestingum eiga líka að bera alla áhættuna þegar verr gengur. Með fullum aðskilnaði væri komið í veg fyrir að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir áhættusömum fjárfestingarbankaverkefnum. Almenningur verði þannig varinn fyrir áhættu fjárfestingarbankastarfsemi og búnir verði til bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Frú forseti. Við eigum alls ekki að selja bankana frá okkur eins og drögin að eigandastefnunni gera ráð fyrir heldur eigum við að nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið. Seljum ekki bankana til vogunarsjóða á grundvelli úreltrar stefnu. Gerum breytingar sem verja almenning fyrir áhættusækni fjárfestingarbankastarfsemi.