146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja umræðuna.

Eins og þingheimur þekkir er eigandastefna ríkisins á bönkunum nú til kynningar á vef ráðuneytisins. Þar er gerð grein fyrir því að ríkið stefni að því að selja alla hluti sína í bönkunum nema 34–40% í Landsbankanum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að við söluna sé rétt að ná sem víðtækastri samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna og að sjálfsögðu verður haft samráð við flokkana í samræmi við lög.

Ég vil einnig leiðrétta þann misskilning hv. þingmanns að ríkið sé að selja vogunarsjóðum einhverja hluti. Eins og kom fram hérna áðan er það slitabú Kaupþings, eigendur Kaupþings sem eru að selja þá hluti.

Í máli sínu vék fyrirspyrjandi að ýmsum þáttum um framtíðarskipan fjármálakerfisins. Engin áform eru uppi um það á þessari stundu að breyta uppbyggingu bankakerfisins í megindráttum. Það er vandséð að bankarnir geti verið færri út frá samkeppnissjónarmiðum og því verður varla hægt að sameina þá. Þá tel ég ósennilegt að það sé skynsamlegt að sundra bönkunum. Við erum nú þegar með afar stórt bankakerfi miðað við stærð hagkerfisins og fram undan er áframhaldandi hagræðing.

Aftur á móti má spyrja hvort bankarnir megi nota sameiginleg tölvukerfi í meira mæli en nú er. Það fyrirkomulag sem nú er veldur því að reka þarf mörg kerfi sem hafa sambærilega eða sömu virkni. Mögulega mætti breyta umbúnaði bankanna að þessu leyti og ná fram lægri kostnaði.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að Alþingi getur að sjálfsögðu sett reglur um umhverfi bankanna burt séð frá eignaraðild.

Hv. þingmaður nefnir einnig mögulegan aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Það er rétt að rök hníga að því að neytendur eigi ekki að bera áhættu af óhóflegri áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi. Þessi umræða hefur farið fram víða um heim. Bæði í Bandaríkjunum og í Evrópusambandinu hafa einstök ríki sett mismunandi reglur. Almennt hefur umgjörð um fjármálafyrirtæki verið að breytast mjög mikið bæði í Evrópu og Íslandi. Hér höfum við nú fjármálastöðugleikaráð og undir því kerfisáhættunefnd. Þessar nefndir auk Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka vakta það sem er að gerast í bankakerfinu og hafa heimildir til að grípa inn í með afar fjölbreyttum hætti. Þá hafa á síðustu árum gjörbreyst reglur um útreikning og kröfur til eigin fjár fjármálastofnana. Þetta hefur allt verið gert einmitt til að tryggja að kostir þess að bankarnir veiti fjölbreytta þjónustu séu ekki á kostnað almennra neytenda eða samfélagsins í heild.

Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að ríkið beri ábyrgð á innlánum. Ef hann er að vísa til yfirlýsingar forsætisráðherra frá árinu 2008 þá hefur hún nú verið felld úr gildi.

Ég hef þegar mælt fyrir málum sem lúta að umbúnaði fjármálakerfisins. Á næstu dögum mun ég mæla fyrir frumvarpi um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Þar er kveðið á um heimildir til vöktunar og inngripa til að tryggja stöðugleika og e.t.v. laga í fjármálaumhverfinu í heild.

Fleiri mál munu fylgja í kjölfarið og fyrirséð að á næstu misserum mun fjármálaráðherra þurfa að leggja fram fjölmörg lagafrumvörp sem varða umbætur á löggjöf á fjármálamarkaði. Ég nefni sérstaklega löggjöf um viðbúnað, skilameðferð og slit fjármálafyrirtækja sem vonandi næst að leggja fyrir þingið fyrir lok ársins.

Mögulegur aðskilnaður fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabanka hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu, t.d. í starfshópi sem skipaður var vorið 2016. Þeirri vinnu er ekki lokið. Hlutdeild fjárfestingarbankastarfsemi í rekstri bankanna minnkaði mjög eftir hrun en hefur aukist aftur á síðustu árum. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að brýnast sé að koma í veg fyrir að bankarnir verði hluti af viðskiptasamsteypum líkt og gerðist fyrir hrun.

Að síðustu langar mig að víkja nokkrum orðum að greiðslukerfi bankanna. Í dag er það þannig að ríkið, í gegnum löggjöf, regluverk, eftirlit og rekstur Seðlabanka, stuðlar að skilvirku greiðslukerfi í landinu. Sérstaklega fjalla gerðir Evrópusambandsins mikið um þetta. Seðlabankinn tilkynnti einmitt á föstudaginn var um kaup á nýjum hugbúnaði fyrir millibankagreiðslur, en búnaðurinn mun leysa af hólmi eldra kerfi frá árinu 2001.

Virðulegi forseti. Á meðan samkeppni er á bankamarkaði munu notendur hafa aðgang að þjónustu sem hentar þeim. Eftirlit, vöktun og ýmiss konar grunngerð eiga að vera á hendi ríkisins hér eftir sem hingað til.