146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:56]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að eiga frumkvæði að því að ræða eigandastefnu ríkisins um fjármálafyrirtæki. Ég verð þó að segja að innlegg hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra olli mér ákveðnum vonbrigðum því það eina efnislega, nýja, sem kom fram hjá honum var að bankarnir gætu nýtt tölvuþjónustu betur. Ég verð að segja eins og er að aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði eru algerlega einstakar þar sem eignarhald okkar, ríkissjóðs, er með því umfangsmesta sem gerist í Evrópu. Stefnan sem fjármála- og efnahagsráðherra birtir núna, uppfærðu drögin að eigandastefnu, gefur ofboðslega litla innsýn í það hvernig kerfið okkar á að vera.

Áður en lengra er haldið er algerlega nauðsynlegt að skoða hver heildarstærð kerfisins eigi að vera. Þurfum við að endurskipuleggja eitthvað? Er það nægilega hagkvæmt? Einnig: Hver á eignarhlutur ríkisins að vera? Erum við búin að skoða hann nægilega vel? Á hann bara að vera þessi 33–40% í Landsbankanum? Hvernig eigum við að fara í þetta? Til dæmis varðandi aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi, er búið að skoða það nægilega vel? Er það það sem önnur ríki eru að gera? Er það til dæmis ein góð leið til að minnka ábyrgð ríkissjóðs á áhættusömum rekstri? Við þurfum að fá svör við þessu öllu áður en við höldum lengra.

Ég tel mjög brýnt að settur verði á laggirnar hópur sérfræðinga sem vinni náið með þinginu um framtíðarmótun á þessu mikilvæga máli okkar. Ég segi: Við erum í algeru dauðafæri að fara í þessa heildarendurskoðun. Við verðum að gera það í góðri samvinnu, framkvæmdarvaldið og löggjafinn.