146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Viljum við endurreisa sama bankakerfi og fyrir hrun? Hvernig lágmörkum við áhættu almennings af fjármálastarfsemi? Þarf ríkið að eiga meiri hluta í einum viðskiptabanka til að tryggja heilbrigða samkeppni og auðvelda viðbrögð við hugsanlegu hruni næst? Þessum spurningum er ekki svarað af ríkisstjórninni. Alþingi á auðvitað að fá að kljást við þær spurningar. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki mótað þessa stefnu einn í samráði við útvalda.

Vonandi fær þessi stefnumótun mikinn tíma á þingi því að hún er langtum mikilvægari en flest þau mál sem stjórnarliðar hafa séð ástæðu til að brydda upp á nú í upphafi kjörtímabilsins. Við megum ekki endurtaka sömu mistökin, einkavæða gróða og ríkisvæða tap.

Íslenska ríkið er langstærsti eigandi bankanna. Nú er einstök staða til að endurskipuleggja bankakerfið þannig að það þjóni virkilega landsmönnum. Reynslan af sölu fjármálafyrirtækja gefur nefnilega ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Landsbanki Íslands í eigu íslenska ríkisins seldi tæplega þriðjungshlut í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun fyrir 2,2 milljarða kr. í óformlegu, lokuðu og ógagnsæju ferli. Verðið var allt of lágt og hluthafarnir hafa fengið kaupverðið endurgreitt með arðgreiðslum á tveimur árum.

Skemmst er að minnast þess þegar útvaldir vinir ríkisstjórnarflokkanna keyptu síðan bankana af ríkinu um aldamótin.

Það þarf að smíða lagaumhverfi sem stuðlar að öruggri, hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði þar sem almenningur er varinn fyrir áhættusamri fjármálaleikfimi bankaeigenda og mikilvægt er að aðskilja starfsemi viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi áður en bankarnir verða seldir. Alþingi skuldar landsmönnum vönduð vinnubrögð að þessu sinni.