146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

eigandastefna ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[16:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hvernig fjármálakerfi sjáum við fyrir okkur? Jú, þjónandi fjármálafyrirtæki fyrir heimili og fyrirtæki, með öðrum orðum verkefni fjármálafyrirtækja, greiðslumiðla, að sinna viðskiptum og að kaup og sala og önnur viðskipti gangi eðlilega fyrir sig. Þessi starfsemi þarf að hafa eðlilegan ágóða en ekki þann ofsagróða sem höfum séð á síðustu árum. Hvernig tengist þetta eigandastefnu? Við erum í þeirri stöðu í dag að ríkið heldur á óvenjulega stórum hlut af fjármálakerfinu og er þar af leiðandi, eins og margir hafa bent á, í augljósri aðstöðu til þess að fjalla m.a. um það hver eigi að vera stærð bankakerfisins. Er eitthvað um það í eigandastefnunni? Hvernig á að minnka stærð bankakerfisins?

Eru kannski hagsmunir þeirra sem vilja selja ríkisbanka þeir að minnka ekki ríkisbankana til að fá sem mest fyrir þá, setja sem minnstar reglur um til að mynda hverjir eru hæfir eigendur, um dreifða eignaraðild eða setja reglur um það hverjir geta við eigandastefnuna eignast bankakerfið? Þarf að setja reglur um hámarkshlutdeild, tengsl og innvarðareglur eins og hv. þm. Óli Björn Kárason minntist á? Auðvitað þurfum við að viðhafa bæði gegnsæi og samkeppni.

Í drögum að þessari eigandastefnu finnst mér skorta á að menn horfi á málið til enda, hvernig það fjármálakerfi sem á að þjóna heimilum og fyrirtækjum í landinu á að verða þegar búið er að selja. Við getum öll verið sammála um, eða flest, að það sé óskynsamlegt að ríkið eigi hér alla banka og allt of mikil áhætta. Við hljótum þó líka að vera sammála um að okkur er ekki sama hverjir eiga það.