146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég tek hér upp mál sem lýtur að virðisaukaskatti á linsum og gleraugum, nátengt annarri umræðu sem við höfum stundum átt hér í þinginu sem lýtur að virðisaukaskatti á lyfjum, en lyf og linsur og gleraugu, öll þessi mikilvægu lækningatæki, ef við getum orðað það sem svo, eru í efra þrepi virðisaukaskattskerfisins.

Nú er það svo að í neðra þrepinu, sem er 11%, eru afmarkaðir þættir. Þar er auðvitað fyrst að nefna matvæli sem bera 11% virðisaukaskatt. En þar er líka að finna bækur og tónlist, þar er að finna ferðaþjónustu og þætti á borð við smokka og taubleiur sem færðir voru í þetta lægra þrep, smokkarnir af þeim ástæðum að mikilvægt væri að þessi tegund getnaðarvarna bæri lægri virðisaukaskatt, taubleiur af umhverfisástæðum. Það má segja að það séu ekki endilega skýrar línur um það hvað lendir í hvoru þrepi virðisaukaskattskerfisins.

Við höfum oft rætt þessi mál á þingi. Oft má heyra þær raddir úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, nánast óháð flokkum, en þó ekki alveg, sem þar eiga ráðherra, að best sé að hafa bara eitt virðisaukaskattsþrep, það sé einfaldast að hafa þetta ekki í of mörgum þrepum. Það er sú krítería sem hefur verið mjög ráðandi t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þegar kemur að skoðun er það líka sú stefna sem skilar því að tekjulægri greiða í raun og veru hærri skatta hlutfallslega, þ.e. ef við tökum til að mynda matvæli og hækkun á matarskatti á sínum tíma þá lagðist hún þyngst á tekjulægsta fólkið því að hlutfallslega hærri hluti af útgjöldum þess fer í matvæli. Þess vegna getur virðisaukaskattskerfið verið mikilvægt pólitískt tæki þó að sjálfsögðu hafi það ekki eins mikil jöfnunaráhrif og þrepaskiptur tekjuskattur.

En þarna þurfum við auðvitað að ræða málin málefnalega. Ég tel að fullkomlega eðlilegt sé að hafa fleiri en eitt þrep í virðisaukaskattskerfinu. Hins vegar held ég líka að full ástæða sé til að ræða betur hvað eigi heima í hvoru þrepi. Ég er raunar með aðra fyrirspurn hér á eftir sem lýtur sérstaklega að bókunum og hvernig við viljum stuðla að starfsumhverfi bókaútgáfu, og er henni beint til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, þá ekki síst út frá virðisaukaskattinum. En fyrirspurnin sem ég beini til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er hvort hann telji ástæðu til að skoða þessi mál hvað varðar gleraugu, sem er auðvitað ekki val nokkurs manns að nota. Þau eru í efra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að það er eðlilegt að skoða þau mál heildstætt, t.d. í samhengi við lyfin. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér eru það 33 Evrópulönd sem leggja virðisaukaskatt á lyf en 23 af þessum 33 eru með lyfin í lægra þrepi. Ísland er með þau í hærra þrepi. (Forseti hringir.) Svipaðar tölur hef ég fundið um gleraugu í nágrannalöndum okkar. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ástæðu til að endurskoða þetta?