146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem ganga með gleraugu. Þegar ég var að vinna sem starfsmaður á leikskóla skemmdust gleraugun mín. Bara heima. En það var ekki sjens að ég hefði efni á að kaupa ný, þrátt fyrir styrk frá stéttarfélagi. Ég er ekkert viss um að lægra virðisaukaskattsþrep hefði hjálpað þar neitt til frekar.

Þetta tæki er mér nauðsynlegt þegar ég sest undir stýri á bíl og því um líkt. Ég hef alltaf litið á þetta eins og hækjur eða ýmislegt annað, hjólastól þess vegna. Þetta er mér lífsnauðsynlegt tæki. Annars er ég ekkert með í venjulegu samfélagi. Ég fékk að reyna það í leikskólanum. Það var ekkert auðvelt. Ég var orðinn rosalega duglegur að þekkja krakka hinum megin á lóðinni eftir því hvort þau voru rauð eða blá kúla. [Hlátur í þingsal.] (Forseti hringir.) Ég styð alla vega einhvers konar stefnu í þá átt að viðurkenna þetta sem almennara hjálpartæki en nú er gert.