146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

lækkun virðisaukaskatts á gleraugum og linsum.

105. mál
[16:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að Píratar eru miklir gleraugnaglámar enda ætla ég að lýsa yfir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra þegar kemur að þessu málefni. Gleraugu eru dýr. Ég hef verið með gleraugu síðan ég var sex, sjö ára. Ég er blind án gleraugna. Gleraugun mín kosta mjög mikinn pening. Þegar ég var stúdent var ekkert hlaupið að því að kaupa sér ný gleraugu. Við erum að tala um hátt í 100 þús. kr. Fyrir lágtekjufólk, sér í lagi fyrir barnmargt fólk, eru þetta miklar fjárfestingar. Sjón er ættgeng þannig að oft er um að ræða sömu fjölskyldurnar. Ég veit alla vega að í minni fjölskyldu eru 100% fjölskyldumeðlima með gleraugu. Þannig að þetta er bara nauðsynlegt hjálpartæki, nauðsynlegt fyrir mig til að geta lifað lífinu og svo marga aðra. Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með svör hæstv. fjármálaráðherra og vona að hann hugsi sinn gang.