146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

byggingarkostnaður og endurskoðun laga.

74. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin og áhuga samþingmanna minna á þessu málefni. Ég vona að þessi áhugi verði til þess að starfshópurinn skili hratt og vel af sér. Ég vil gjarnan fá að koma þeirri ábendingu á framfæri við umhverfis- og auðlindaráðherra að á þingmálaskrá félags- og jafnréttismálaráðherra er mál sem tengist húsnæðismálum. Það gæti hugsanlega orðið bandormur ef hægt væri að koma þar inn með breytingar eða jafnvel að ráðherra bætti aðeins við listann hjá sér. Hugsanlega er þarna eitthvað sem við gætum gert fyrir vorið en ekki beðið með það fram á haustið að koma með nauðsynlegar breytingar sem hafa jafnvel verið töluvert lengi í undirbúningi.

Ég vil taka undir það sem talað er um hér varðandi fjölbreytnina. Það er nauðsynlegt að huga að öllum heimilum, eins og ég hef margoft orðað. Það þýðir að við þurfum að vera með fjölbreytt húsnæði. Vandinn sem við erum stöðugt að fást við — og ég er einmitt með tvær fyrirspurnir sem snúa að því, annars vegar til forsætisráðherra og hins vegar til fjármálaráðherra, um það einfaldlega hvaða upplýsingar við höfum í höndunum um þær fjárfestingar sem eru í gangi núna. Við erum með þessi gögn, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti hér á. Þau eru til hjá sveitarfélögunum. Þau eru til hjá Skipulagsstofnun. En það virðist vera að þau skili sér ekki inn, jafnvel ekki sem hagtölur, sem við byggjum síðan stórar ákvarðanir á sem snúa að fjármálum ríkisins. Það sýndi sig t.d. að spár um íbúðafjárfestingar árið 2015 gengu alls ekki eftir. Maður spyr sig hvort það sé vegna þess að við höfum ekki nægilega góð gögn.

Ég vil að lokum hvetja ráðherranna til þess að huga að fjölbreytni þannig að við séum ekki bara að tala um þéttingu svæða heldur hvernig við getum hraðað skipulagsferli almennt, hvernig við getum auðveldað einstaklingum jafnt sem lögaðilum að byggja. (Forseti hringir.) Það hefur sýnt sig að við höfum ekki náð að viðhalda nægilega vel þekkingunni eftir hrun, við misstum fólk og tæki úr landi. En við erum hins vegar með ungt og hraust fólk sem hefði hugsanlega áhuga á því í dag að byggja sjálft. Af hverju tryggjum við ekki fjölbreytnina og, að lokum, samtalið við sveitarfélögin?