146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að taka upp þetta gríðarlega mikla og mikilvæga mál sem er eitt mesta heilbrigðisvandamál ungs fólks, geðheilbrigðismálin. Um það vitnar nýleg rannsókn og niðurstöður Rannsókna og greiningar, sem og stór bresk rannsókn á kvíða meðal ungra stúlkna sem kynnt var í Bretlandi í september síðastliðnum sem sýnir sömu niðurstöður. Umboðsmaður barna lýsti því einnig yfir á fundi með þingmönnum núna fyrir áramót að geðheilbrigðismál barna og ungmenna væru einn af þyngstu málaflokkum sem koma inn á borð þess embættis. Við getum varla beðið lengur.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra heilbrigðismála til að leggja mikla áherslu á raunhæfar leiðir til úrbóta þegar í stað fyrir þennan aldurshóp og stíga ákveðið inn í þetta stigvaxandi vandamál með það að markmiði að draga úr vaxandi tíðni geðsjúkdóma hjá ungu fólki og börnum.