146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er nauðsynlegt að líta til þessa málaflokks á heildrænan hátt því að það er allt of algengt að foreldrar reki sig á veggi í kerfinu þegar kemur að geðheilbrigði barna og unglinga og síðan þegar barnið nær 18 ára aldri. Því vona ég innilega að hæstv. ráðherra heilbrigðismála muni leggja mikinn kraft í þessa vinnu þegar kemur að því að taka heildstætt á málaflokknum. Þetta er einn angi þess og ég fagna þess að við ræðum það hér. En það eru mjög margir sem þjást af fleiru en kvíða. Birtingarmynd kvíða getur verið margslungin.

Ég vona svo sannarlega að hér myndist þverpólitísk sátt um að bæði vinna þessa vinnu á þinginu í góðu samstarfi við ráðuneytið (Forseti hringir.) sem og að vera í mikilvægu samstarfi með hagsmunasamtökum sem komið hafa og kynnt fyrir okkur þennan málaflokk þegar kemur að geðheilbrigðismálum barna og unglinga.