146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:06]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að segja hér strax að ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fara í átak til að stytta biðlista, átak til að fjölga enn frekar sálfræðingum og auðvelda aðgengi að þeim í heilbrigðiskerfinu, eins og fordæmi eru fyrir hvað varðar hinn líkamlega þátt veikinda. Það er mikilvægt að fara í það sem snýr að andlegri vanlíðan og slíkum þáttum. Ég hef vissulega áhyggjur af þeirri þróun og þeim tölum sem við sjáum um aukinn kvíða og margþættan vanda sem er til staðar hjá börnum. Eins og rakið hefur verið á hann rætur sínar að rekja til ýmissa þátta. Það er mjög mikilvægt að við ráðumst í aðgerðir til þess að vinna á þessum vanda núna áður en hann verður stærri og flóknari og getur þar með haft aukinn áhrif og orðið alvarlegri seinna meir.