146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:09]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Ég hef áður tjáð mig um þetta mál úr ræðustóli Alþingis og reynslu mína af því sem framhaldsskólakennari sem hefur þurft að horfa á bak nemendum sínum þegar þeir hafa orðið hinu svokallaða brottfalli að bráð vegna andlegra sjúkdóma. Kvíði er hér tekinn út fyrir sviga sérstaklega en hann er vissulega angi af því sem ég tel að sé eitthvert stærsta heilbrigðismál okkar tíma og ein stærsta áskorun okkar tíma.

Á ráðstefnu sem ég sótti í Færeyjum nú um helgina var yfirskrift einnar glærunnar: Konur þjást, karlar deyja. Það var mjög sláandi. Því miður er það svo að margir karlmenn kjósa að enda líf sitt þegar andlegir erfiðleikar steðja að þeim. Ég vil hvetja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra heilbrigðismála til að eiga samstarf og samtal við menntamálaráðherra, ekki síst í þeim tilgangi að grennslast fyrir um hverjar eru orsakirnar fyrir því að svona er komið, en ekki bara leita svara við því hvernig vinna eigi á afleiðingunum.