146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka líka fyrir þessa umræðu. Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra talar um þverfaglega nálgun. Ég held að hún sé mikilvæg, sérstaklega innan heilsugæslunnar. Ég er líka ánægð með að heyra um fjarheilbrigðisþjónustuna. Ég held að það sé nokkuð sem við eigum að reyna að koma í gagnið af einhverju viti sem allra fyrst því að þar komum við dreifðum byggðum mjög til aðstoðar. Það er ekki auðvelt að fá sálfræðinga í skóla úti um allt land, nema kannski með einhverra vikna millibili og það dugir ekki alltaf.

Ráðherrann fékk undirskriftir rúmlega 11 þúsund einstaklinga á dögunum, það er rétt vika síðan, þar sem hann var hvattur til þess að veita sálfræðiþjónustu á sama grundvelli og aðra heilbrigðisþjónustu, þ.e. í gegnum sjúkratryggingar. Ég myndi vilja heyra viðhorf ráðherrans til þess, hvort hann telji að það sé hægt, þ.e. öðruvísi en bara í gegnum heilsugæsluna. Ég held að ef við ætlum að uppfylla barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og hér var rakið áðan þurfum við heldur betur að gera góðan (Forseti hringir.) skurk.