146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kvíði barna og unglinga.

95. mál
[17:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa frábæru umræðu og vil taka undir þá hvatningu sem ég hef fengið frá ykkur, hv. þingmenn. Ég er svo innilega sammála því að þetta verkefni er ekki bara á mínu borði út frá heilbrigðissjónarmiðinu heldur er þetta samvinnuverkefni heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra, en ekki síður samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga sem fara með mikið af þjónustu í nærumhverfinu og skólaumhverfinu, ekki síður samvinnuverkefni heimilis og skóla. Þess vegna þótti mér sérstaklega vænt um að heyra rætt um tilraunaverkefnið í Breiðholti, svokallað Breiðholtsverkefni, sem er samvinnuverkefni skóla, heilsugæslu, borgar og ríkis, íþróttafélaga og svo framvegis. Ein af stóru ástæðunum fyrir því hvað ungmennum okkar hefur gengið vel og hvað við höfum séð frábærar tölur og niðurstöður t.d. hvað varðar minni neyslu síðustu 10–20 árin hefur ekki síst verið öflugt ungmenna- og æskulýðsstarf, íþróttastarf, og einnig tónlistar- og menningarstarf, fjölbreytt æskulýðsstarf og eftirskólastarf sem komið hefur á móti álagi í skólakerfinu, ef svo má segja.

Ég held að það sé mjög mikilvægt sem minnst var á hérna rétt undir lokin að við eigum ekki bara að horfa á þetta út frá heilbrigðissjónarmiðinu, sem ég geri í ræðu minni sem heilbrigðisráðherra, út frá því þegar vandi er orðinn, heldur ekki síður út frá forvörnum, (Forseti hringir.) og þá ekki bara varðandi það sem við ætlum að banna heldur líka hvað við ætlum að setja jákvætt í púkkið.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna.