146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ber upp fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um dreif- og fjarnám. Ég á mér nokkra sögu hér hvað snýr að fyrirspurnum varðandi dreif- og fjarnám þótt hafi aðeins dregið úr þeim meðan ég var í ráðherraembætti. En að koma hér sem þingmaður vil ég mjög gjarnan fá að ræða uppbyggingu dreif- og fjarnáms á framhalds- og háskólastigi við ráðherrann og svo varðandi fjármagn til uppbyggingar dreif- og fjarnámi.

Það kemur fram í stjórnarsáttmálanum að fjarnámskennsla verði þróuð enn frekar til að mæta ólíkum þörfum og aðstæðum námsmanna. Ég er einkar ánægð að sjá að fjarnám er sérstaklega nefnt í stjórnarsáttmálanum. Hins vegar þegar ég átti þessi samtöl við þáverandi menntamálaráðherra hafði ekki verið mótuð nein sérstök opinber stefna um fjar- og dreifnám og ábyrgðin á uppbyggingu námsins og fagleg ábyrgð hafði verið hjá hverjum skóla og samstarf milli skóla verið takmarkað. Hins vegar var skipaður starfshópur árið 2010 þar sem hugað var að fjar- og dreifnámi í framhaldsskólum. Þar lagði hópurinn til að ákveðin stefna yrði mörkuð í aðalnámskrá framhaldsskóla með miðlægri yfirsýn, aukið samstarf yrði á milli skólanna í gæðamálum og þjónustu við nemendur í skólunum og að dreif- og fjarnám yrði aðgengilegri möguleiki við hlið dagskólanáms og boðið yrði upp á fjölbreyttara námsframboð. Einnig var talað um að efla rannsóknir, auka framboð á símenntun fyrir kennara og efla faglegan stuðning við þá í starfi.

Þá var líka talað um mikilvægi þess að gengið yrði frá því í kjarasamningum við Kennarasamband Íslands og fjármálaráðuneytið hvernig ætti að skilgreina mat á vinnu kennara í fjar- og dreifkennslu. Ég held að nokkuð auðveldlega sé hægt að yfirfæra margar af þessum tillögum yfir á háskólastigið.

Fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Líneik Anna Sævarsdóttir, lagði fram þingsályktunartillögu þess efnis að ráðherra yrði falið að vinna aðgerðaáætlun um eflingu fjarnáms á háskólastigi og var þá að horfa til hversu mikilvægt fjarnám hefur reynst, eins og ég hef stundum orðað það, að vera ein markvissasta og skilvirkasta byggðaaðgerð sem farið hefur verið í hér á Íslandi, að tryggja einstaklingum jöfn tækifæri til náms þannig að atvinnulífið úti um allt land fái aðgang að menntuðum starfsmönnum eins og við höfum séð t.d. varðandi grunnskólakennara, við höfum séð það þegar kemur að hjúkrunarfræðingum hversu miklu máli það hefur skipt að bjóða upp á þetta nám í fjar- og dreifnámi.

Þess vegna — í ljósi þess að samkvæmt þeim síðustu tölum sem ég fann voru um 20% nema á framhalds- og háskólastigi í fjar- eða dreifnámi, þótt þetta sé orðnar ívið gamlar tölur, ég sá líka að konur voru þar í meiri hluta (Forseti hringir.) — hef ég mjög mikinn áhuga á að heyra einfaldlega frá ráðherranum hver stefna hans er varðandi uppbygginguna, og það sem líka er að því miður þurfti að draga verulega úr fjármunum til menntakerfisins og líka dreif- og fjarnáms eftir hrunið, hvort ráðherrann hyggst auga fjárveitingu til uppbyggingar dreif- og fjarnámi.