146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda sömuleiðis og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Við þekkjum það úr kjördæmi okkar, eins og hann kom svo vel inn á, bæði varðandi Menntaskólann á Tröllaskaga og fjarmenntaskólann, hversu vel það nám hefur gefist og eins dreifnámið úr Laugaskóla, Þórshöfn og í Vopnafirði. En það er mjög mikilvægt að við skjótum styrkum stoðum undir þessar litlu einingar til þess að fólk hafi trú á því að það sé komið til að vera og að nemendur sjái hag sinn í að vera á staðnum. Við vitum að það breytir miklu fyrir samfélögin að hafa þetta unga fólk á staðnum en ekki síður er þetta kostnaður fyrir foreldra.

Ég tek undir orð hv. þingmanns varðandi samstarf og samvistir í dagskóla. Það er markmið háskólanámsins og framhaldsskólanámsins eins og því verður við komið. En það er sá möguleiki sem við þurfum að styrkja enn frekar í sessi með fjárframlögum, sérstaklega í dreifnámi, til þess að allir standi jafnfætis og geti stundað nám, því að það hefur (Forseti hringir.) ekki verið raunin alls staðar.