146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í ræðustól sem fyrrverandi starfsmaður á leikskóla, kennari í grunnskóla, ég hef farið í gegnum allt menntakerfið svona nokkurn veginn tvisvar, farið í kvöldnám og fjarnám og undirbúningsnám og endurmenntunarnám og ég veit ekki hvað og hvað. Í doktorsnámi mínu var ég einmitt að rannsaka það hvernig samfélög nemenda störfuðu saman á internetinu. Í öllum þessum aragrúa menntaumhverfa sem ég hef verið í hef ég haft þá sýn á hlutina að við höfum alveg gríðarleg tækifæri til að breyta rosalega mörgu í því hvernig við menntum okkur. Við höfum aðferðir og tækni sem gera okkur kleift að endurnýta það sem áður hefur verið búið til. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra eindregið til að hafa skýra stefnumörkun, t.d. samvinnu við gerð námsefnis (Forseti hringir.) þar sem kennarar og jafnvel nemendur geta lagt saman í púkk til að hanna námsefni fyrir næstu kynslóðir. Þá verður það lifandi umhverfi náms og mennta.