146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Hér hefur margt verið sagt sem ég get tekið undir, ekki síst hversu skýrt ráðherrann svaraði varðandi það að hann muni leggja áherslu á dreif- og fjarnám og trú hans á mikilvægi þess sem hluta af því námsframboði sem við bjóðum upp á.

Ég vil líka taka undir, þótt hér sé sérstaklega spurt um dreif- og fjarnám, að það má segja að við séum að hluta til að tala um byggðamál. Ég vil hins vegar minna á að rúmlega helmingur samkvæmt þeim tölum sem ég hef af þeim nemendum sem eru í dreif- og fjarnámi býr á höfuðborgarsvæðinu. Það er augljóst að hér er fólk að velja ákveðna tegund af námi sem hentar lífi þess svo það geti hugsanlega farið í nám, samræmt það vinnu og telur að þetta sé það nám sem henti því best. Það hefur líka verið mjög áhugavert að sjá, eins og hér var nefnt, þá þróun sem hefur verið eins og varðandi fjarmenntaskólann. Ég hef hins vegar, og það er eitt af því sem ég myndi gjarnan vilja hvetja ráðherrann til að huga að áfram, gjarnan viljað sjá Háskóla Íslands standa sig betur í þróun á nýjum kennsluaðferðum því að þar er margt nám sem er bara boðið upp á þar og því miður hefur það ekki alltaf verið aðgengilegt fyrir allt landið og fyrir fólk sem hugsanlega getur ekki farið í dagskóla. Þetta er eitt af því sem þyrfti að huga að að mínu mati. Og af því að hér var talað sérstaklega um framhaldsskólana, vil ég nefna sem ákveðna fyrirmynd skoska háskólann The University of the Highlands and Islands þarf sem er horft til samstarfs ólíkra háskóla (Forseti hringir.) úti á landi. Það var lengi vel draumur minn og vonandi gerist það einhvern tíma að menn búi til fjarmenntaháskóla en ekki bara fjarmenntaskóla.