146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

dreif- og fjarnám.

97. mál
[17:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu. Hún er á engan hátt tæmd. Það er mikil gerjun í þessum geira. Ég veit að háskólarnir eru allir að skoða sín mál. Sömuleiðis er orðin til mikil þekking í framhaldsskólunum og sumir skólameistarar þar eru meira að segja nýttir erlendis til þess að miðla reynslu sinni o.s.frv.

Ég vil nefna sérstaklega, því að hv. þm. Einar Brynjólfsson nefndi umræðuna um samgönguáætlunina: Forsendan fyrir því að þetta gangi allt saman þokkalega vel hjá okkur er að allir landsmenn um allt land hafi aðgengi að öflugum nettengingum. Ef til vill mætti segja að eitthvert stærsta skrefið sem við gætum tekið í að efla dreif- og fjarnám á Íslandi væri að styrkja innviði á sviði samgangna og fjarskipta. Það er í rauninni grunnurinn að því að við getum fullnustað þá drauma sem hér hafa komið fram í máli þingmanna undir þessari umræðu.

En út af umræðunni um háskólanna þá verðum við líka að gæta þess að háskólar eru sjálfstæðar stofnanir og haga fyrirkomulagi náms og kennslu samkvæmt stefnu sem sérhver þessara sjálfstæðu stofnana setur sér. Það er ekkert einfalt að segja þeim beinlínis fyrir verkum í þessum efnum en það liggur fyrir, eins og ég gat um áðan, að áfram er fjármögnun í þetta svokallaða samstarfsnet opinberra háskóla sem að hluta til hefur verið nýtt til að stuðla að þróun og breytingum á kennsluháttum og samþættingu og samstarfi varðandi námsframboð á háskólastigi.