146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kjör og staða myndlistarmanna.

125. mál
[17:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í kynningu hæstv. forseta lýtur fyrirspurn mín að kjörum og stöðu myndlistarmanna og snýst, ef við víkjum okkur beint að kjarna málsins, í raun og veru um möguleika myndlistarmanna til að fá greitt fyrir vinnu sína og þar með samfélagslegt gildi myndlistar, sem ég held að enginn dragi í efa. En þegar svo kemur að því að myndlistarmenn fái greitt fyrir vinnu sína kemur hik á samfélagið, sama hvort það eru ríki eða sveitarfélög eða aðrir aðilar. Það er þetta hik sem mig langar að biðja hæstv. ráðherra að velta fyrir sér með mér.

Það er svo að víða um lönd, bæði í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, hefur verið gerður ákveðinn samningur um þóknun til listamanna sem síðan hefur verið fyrirmynd ákveðins grundvallar að sambærilegum samningi á Íslandi. Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna hefur sérstaklega stutt þetta frumkvæði með því að leggja fram þessar útlínur og vill að listasöfn og listamenn geti stuðst við þetta módel. Það snýst í raun og veru um að myndlistarmenn fái ekki einungis greitt fyrir sölu á myndlist sinni heldur ekki síður fyrir það sem þeir gera og aðhafast á söfnum, sama hvort það eru söfn sem eru rekin af sjálfseignarstofnunum eða ríki eða sveitarfélögum.

Nú er það ljóst að ekki er um auðugan garð að gresja fyrir myndlistarmenn til að standa straum af kostnaði fyrir vinnuframlag sitt. Mér sýnist að á fjárlögum reiði íslenska ríkið fram um 700 millj. kr. til myndlistarmála almennt en ef íslenska ríkið kæmi til móts við hugmynd Sambands íslenskra myndlistarmanna væri um að ræða að auka fjárveitingar til myndlistarmanna um 90–100 millj. kr. á ársgrundvelli. Það er auðvitað kjarni málsins hér.

Spurningin eins og hún kemur fram í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra er í fyrsta lagi: Hvernig telur ráðherra að vænlegast sé að bæta stöðu og kjör myndlistarmanna?

Í öðru lagi: Hvernig hyggst ráðherra bæta stöðu myndlistar á Íslandi almennt? Þar erum við líka að fjalla um skólakerfið, menntunina og utanumhaldið, aðgengið o.s.frv., allt saman.

Og loks spyr ég hæstv. ráðherra hver afstaða hans sé til þess verkefnis sem hér hefur verið reifað lítillega, verkefnisins Við borgum myndlistarmönnum.