146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

kjör og staða myndlistarmanna.

125. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina í þessum þremur liðum.

Óumdeilt er að samfélagslegt gildi myndlistar er gríðarlega mikið. Ég deili skoðunum með hv. þingmanni í þeim efnum. Ég ætla að hlaupa á þessum þremur spurningum og svara þeim.

„Hvernig telur ráðherra að vænlegast sé að bæta kjör og stöðu myndlistarmanna?“

Ég er þeirrar skoðunar að kjör og staða myndlistarmanna ráðist aðeins að litlu leyti af aðgerðum stjórnvalda þar sem hér á landi er ekki, frekar en víðast hvar annars staðar, um að ræða að menningarlífið sé ríkisrekið eða standi og falli fjárhagslega með framlögum stjórnvalda. Kjör myndlistarmanna jafnt sem annarra listamanna ráðast öðru fremur af afstöðu almennings á hverjum tíma. Það er fólkið í landinu sem kaupir bækur, sækir leiksýningar, fer á tónleika og kaupir útgefna tónlist o.s.frv. Þetta ræður mestu um kjör listafólks. Það er fólkið og fyrirtækin sem kaupa verkin og ráða þannig mestu um afkomu.

Að minni hyggju er vænlegast til að bæta kjör og stöðu myndlistarmanna jafnt sem annarra listamanna að leggja sig fram um og hvetja landsmenn til að njóta listarinnar, njóta þeirrar menningar sem er í boði, kaupa bækur, fara í leikhús, sækja tónleika, kaupa tónlist, sækja listsýningar og njóta þar með ávaxta þeirrar vinnu sem þetta góða fólk er að leggja í og bera á borð fyrir okkur til að þroska okkur sem manneskjur. Þetta verður best gert að minni hyggju með menningarlegu uppeldi í gegnum skólakerfið, menningarlegri umfjöllun fjölmiðla og almennri umræðu í þjóðfélaginu, með því að hvetja til þeirrar vitundar að menningin og þar með myndlistin séu mikilvægir þættir í samfélaginu og við værum öll til muna fátækari án hennar.

„Hvernig hyggst ráðherra bæta stöðu myndlistar á Íslandi?“

Við þessu er í sjálfu sér ekkert einfalt svar. Ef ég horfi á þetta út frá stjórnvöldum getur það snúið að skólakerfinu, hvar svo sem við lítum til þess. En að sjálfsögðu ef við horfum dýpra inn í málaflokkinn er hægt að gera það með því að skapa listamönnum tækifæri til að sinna sínum hugðarefnum. Á sviði myndlistar jafnt sem annarra listgreina hefur það að mörgum leyti verið gert og óskum mætt að miklu leyti, ekki öllu leyti, auk þess sem ríki og sveitarfélög reka listasöfn og ríkið leggur rekstrarfé til sérstakrar kynningarmiðstöðvar á myndlist. Má segja að helstu verkfærin sem ríkisvaldið hafi notað í þessum tilgangi séu tvö, annars vegar starfslaun listamanna, þar sem ríkið greiðir listamönnum laun í tiltekinn tíma svo þeir geti sinnt listinni, og hins vegar eru framlög í myndlistarsjóð, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um. Sá sjóður veitir listamönnum styrki til ákveðinna verkefna. Upphæðin til þessara tveggja meginþátta hefur tekið breytingum á síðustu árum. Þetta tók vissulega á sig ákveðið högg í efnahagshruninu en reynt hefur verið að fikra þessu ofar síðustu ár. 20% hækkun á starfslaunum myndlistarmanna frá árinu 2014 og 80% hækkun í myndlistarsjóð frá árinu 2014.

Auðvitað verður alltaf deilt um hvað telst mikið eða lítið á þessum sviðum sem öðrum. Í mínum huga er hins vegar alveg ljóst að framlög til myndlistarsjóðsins eru lægri en framlög til annarra verkefnasjóða á listasviðinu. Ég vonast til að geta unnið að því að auka jafnvægið á þessu sviði á næstu árum samhliða því að unnið verði að því að endurskoða stuðningskerfi ríkisins á sviði menningarmála almennt sem mér þykir óþarflega flókið í núverandi mynd.

„Hver er afstaða ráðherra til verkefnisins „Við borgum myndlistarmönnum““?

Þetta er samhljóða fyrirspurn og kom frá hv. þingmanni til menntamálaráðherra í mars á síðasta ári. Ég vona að hv. þingmaður virði mér það til vorkunnar að ég er ekki kominn mjög langt í þetta verkefni. Þó gaf þessi fyrirspurn mér tilefni til að setja mig lítillega inn í þessi mál án þess að ég hafi tekið afstöðu til þeirra. Það er hins vegar alveg augljóst að þarna eru mörg álitaefni uppi, en þetta verður eitt af þeim verkefnum sem ég sé fram undan í ráðuneytinu, að móta afstöðu til þeirra tillagna sem Samband íslenskra myndlistarmanna hefur sett fram og sjá síðan í framhaldi af því hvort við getum leitt þau mál til lykta. Ég vona svo sannarlega að málið haldi áfram í kjölfar þeirrar umræðu sem við eigum hér.