146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og vind mér til svars. Ég tel að flestum sé kunnugt um að fjárframlög til háskólakerfisins, þar með talið Háskóla Íslands, drógust verulega saman í kjölfar efnahagshrunsins 2008 á sama tíma og nemendum í háskólanámi fjölgaði umtalsvert. Sem betur fer hefur orðið nokkur viðsnúningur á síðustu þremur árum, bæði vegna aukinna fjárveitinga að einhverju leyti en ekki síður að einhverju leyti vegna fækkunar nemenda. Þetta er eitthvað sem við þekkjum ágætlega.

Háskólakerfið hefur eflst og stækkað á undanförnum árum. Stór hluti ungs fólks er einfaldlega orðinn háður því að háskólagráða hleypi honum inn til atvinnulífsins. Þess vegna skiptir þetta sífellt meira og meira máli. Ég held að það sé óumdeilt að flestir hér inni eru sammála um að okkur beri og að við verðum að standa saman um að efla háskólastigið, styðja við gæðastarf og innri uppbyggingu, ef á að tryggja að nemendur hér á landi njóti sambærilegrar menntunar og það sem best gerist í nágrannaríkjum. Ég hef átt þess kost að heimsækja jarðvísindasviðið sem hv. fyrirspyrjandi nefndi áðan.

Á síðustu misserum hefur verið unnið að því í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að efla fjármögnun kennslu í háskólanum með því að hækka verð reikniflokka í reiknilíkani háskólans. Við verðum að halda áfram á þeirri braut en jafnframt hafa í huga að markmiðið er ekki í raun fjármagnið sem slíkt heldur aukin gæði og gæðamenning í háskólakerfinu öllu. Að því ber okkur að vinna.

Á síðasta ári lauk gæðaráð háskólans sínum fyrsta hring gæðaúttekta í háskólanum. Ég veit að þær innri og ytri úttektir sem unnar voru í tengslum við gæðaráðið hafa nýst háskólanum mjög vel í gæðastarfinu.

Ég veit til þess að hér inni er líka þekking á því að samkeppnissjóðir í rannsóknum og nýsköpun hafa verið efldir og töluverður hluti þess hefur skilað sér til háskólanna. Í dag er mikil gróska í þessu rannsóknastarfi. Til vitnis um það má m.a. nefna að nýlega hlutu tveir ungir íslenskir vísindamenn sinn styrkinn hvor frá Evrópska rannsóknaráðinu en þeir eru aðeins veittir framúrskarandi vísindamönnum.

Auðvitað viljum við halda áfram á þeirri vegferð sem við erum smátt og smátt að fikra okkur inn á og efla háskólakerfið. Ég tel að við verðum líka að hafa í huga hvernig við getum stutt háskólana, eins og ég nefndi áðan, til að auka gæði kennslu til framtíðar.

Fjármögnun háskólanna verður nánar útfærð í fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2021 og fjármálaráðherra er uppálagt að leggja það skjal og þá áætlun fyrir þingið eigi síðar en 1. apríl næstkomandi.

Það er rétt að mörgu leyti sem hv. fyrirspyrjandi nefnir varðandi fjarnámið. Fjarnámið hefur aukist til muna í íslenskum háskólum síðustu ár og getur slíkt námsfyrirkomulag auðveldað nemendum í öllum landshlutum aðgang að fjölbreyttu námsframboði eins og við ræddum áðan. Til þessa hefur þó ekki verið gerð úttekt á því hvernig þetta námsfyrirkomulag stenst samanburð við staðarnám. Það er verk sem ég tel að við verðum að vinna en í fjárlögum ársins 2017 kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið mun á árinu 2019 standa að sértækri gæðaúttekt á gæðum fjarnáms þvert á háskóla. Niðurstöður úttektarinnar verða nýttar og á að nýta til að styðja við stefnumótun um háskóla. Háskólarnir eru, eins og ég nefndi raunar í svörum við annarri fyrirspurn fyrr á þessum fundi, sjálfstæðar stofnanir og haga fyrirkomulagi náms og kennslu samkvæmt stefnu sem hver skóli setur sér þar að lútandi. Ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi þekki að í stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2016–2021 er tekið fram að skólinn ætli sér á tímabilinu að móta heildstæða stefnu um nám og kennslu sem taki m.a. til þróunar kennsluhátta, mats á gæðum kennslu, endurmenntunar, hlutanáms, upptöku fyrirlestra og fjarnáms. Það er gert ráð fyrir að skólinn geti notið góðs af þeirri úttekt sem ég gat um að ráðuneytið myndi láta fara fram á fjarnámi við þessa stefnumótun síðar á þeim mikilvæga þætti.