146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í kosningabaráttunni var vel farið yfir málefni háskólans. Kannski ekki eins vel og sumir vildu en þokkalega samt. Þar kom vel fram að margt vantaði upp á. Farið var yfir stefnu sem Vísinda- og tækniráð setti og hvernig það var langt frá því að ná markmiðum þeirrar stefnu um 3% aukningu á framlagi af landsframleiðslu og því um líku til þess að ná ákveðnum gæðum í háskólastarfinu.

Einnig hefur verið farið yfir það hjá fjárlaganefnd að reikniritið á framlögum til skóla á nemanda í mismunandi námsgreinum hefur ekki verið uppfært að ráði á undanförnum árum af því að það er einfaldlega svo rosalega dýrt. Við förum alltaf í skyndilausnir í staðinn fyrir að styðja vel við grunninn og (Forseti hringir.) uppbyggingu í þessum málaflokki. Ég legg til við ráðherra að farið verði í alvörustefnumótun sem verður framfylgt og að við byggjum upp grunninn.