146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Gæði, við vitum að þau kosta peninga. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að sumu leyti skýr svör, kannski ekki alltaf nógu skýr. Það er málið að langt fjársvelti hefur hrjáð, ekki bara Háskóla Íslands heldur alla háskólana. Það er komið að einhverjum þolmörkum sem sést á því sem ég sagði og hafði eftir Ólafi Ingólfssyni prófessor, það er einfaldlega ekki hægt að ganga lengra í niðurskurði, nú þarf að snúa honum við.

Varðandi fjarkennsluna snýst þetta um að háskólarnir vinni saman að ólíku framboði í fjarkennslu. Það er ekki þannig hugsað að einn taki frá öðrum. Nýsköpun og atvinnutækifæri eru háð háskólamenntun, mjög svo. Við sjáum það einfaldlega. Hvað hefur gerst í útvegun atvinnutækifæra fyrir háskólamenntaða? Aukningin er fyrst og fremst í störfum sem krefjast tiltölulega lítillar menntunar en háskólamenntað fólk hverfur margt hvert af landinu. Þetta er mjög alvarleg staða sem háskólarnir eru í þegar kemur að því að sjá til þess að ekki einungis háskólamenntunin sé bæði góð og mikil heldur líka að atvinnutækifæri fylgi.

Ég held að það sé kominn tími til, því að hér var talað um heildarsýn, að lögð verði fram endurskoðuð og mótuð landsstefna í málefnunum á háskólastigi. Það er verið að tala um sameiningu háskóla, um ólíkt námsframboð, um endurfjármögnun o.s.frv. Þetta verður ekki gert án þess að móta heildarstefnu. (Forseti hringir.) Það er af nógu að taka í þeim málum.