146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

málefni Háskóla Íslands.

127. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna hér. Það er alveg augljóst að málefni háskólanna brenna mjög á fólki og þingmönnum. Það er gott að vita af mikilli varðstöðu um þetta skólastig í þessum sal.

Við skulum líka minnast þess sem vel er gert. Ég átti þess kost að fara í heimsókn til Háskóla Íslands og hlýða á það sem okkar ágæta fólk þar segir og heldur fram. Á mörgum sviðum stendur háskólafólk á Íslandi sig afburðavel og nægir í því samhengi að nefna árangur þess á sviði rannsókna í samanburði við sambærilega háskóla annars staðar á Norðurlöndum, sem ég hvet þingmenn til að kynna sér. Þar er árangur háskóla okkar afar góður. En vissulega eru inn á milli erfiðir staðir þar sem við þurfum að berja í bresti og alveg klárt mál að við þurfum og getum víða gert ágætlega á þessu sviði sem og á mörgum öðrum.

Ég minni hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé á að þingið samþykkti fjárlög fyrir árið 2017. Það var nánast samhljóða afgreiðsla á mörgum sviðum í þeim efnum. En ég vil geta þess hérna, því að beinlínis var spurt af afmælisbarni dagsins, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, hvers vegna við gætum ekki fengið úttekt fyrr en 2019, að ég vitnaði einfaldlega til texta fjárlaganna sem ber það með sér að það eigi að vinna þessa úttekt á árinu 2019 til að nýta m.a. inn í stefnumörkun Háskóla Íslands.

Ég vil líka nefna að háskólarnir eru, eftir því sem mér er tjáð, að vinna á sumum sviðum að uppbyggingu og samræmingu fjarnáms, sem er gott.