146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er mér hjartans mál mikið, íslenskan, og ég vil glaður ganga til samstarfs við hv. þingmann um úrbætur í þeim efnum til styrkingar íslensku máli.

Hv. þingmaður spyr fyrst um virðisaukaskattinn, hvort ég muni beita mér fyrir því að virðisaukaskattur á bækur verði lækkaður. Því er til að svara að einfalda myndin af því er sú að skattamálin, þar með talin málefni virðisaukaskatts, eru á borði fjármála- og efnahagsráðherra og því ekki á valdi menntamálaráðherra að gera neitt á því sviði með beinum hætti eins og hv. þingmaður veit. Hér áðan var umræða um virðisaukaskatt af ýmsum öðrum vörum þar sem fjármálaráðherrann sat fyrir svörum.

Mín skoðun er sú að virðisaukaskattur á bækur sé of hár. Ég mun taka þetta mál upp við starfsbróður minn í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en geri mér hins vegar fullkomlega grein fyrir því að lækkun á virðisaukaskatti getur orðið torsótt. Í mínum huga snýst þetta um móðurmálið, þetta örsvæði sem við erum í samfélagi þjóðanna, 330 þús. manna þjóð. Okkur hefur verið falin ábyrgð á þeim gersemum sem íslensk tunga geymir. Við verðum að leggja okkur fram um að gæta þeirra mjög vel. Ég held að við getum gert það með ýmsum aðferðum, ekki eingöngu með því að færa til skattþrep heldur fleiri atriðum sem ég kem kannski örlítið að hér á eftir.

Ég hef mikinn hug á að efla íslenskuna og íslensk bókaútgáfa er órjúfanlega hluti af því verkefni. Það hefur ekki gefist langur tími til að skoða þessi mál á þeim mánuði sem ég hef verið með þennan málaflokk en samt sem áður er þó vinna að hefjast í ráðuneytinu við að skoða málefni bókaútgáfunnar í landinu og í samvinnu við íslenska bókaútgefendur. Ég hef þegar átt góðan fund með Félagi íslenskra bókaútgefenda fyrir skömmu. Þar fórum við yfir stöðuna og hún er gríðarlega alvarleg og eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda hefur bóksala dregist mjög saman frá hruni.

Ég vil líta á þetta mál í stærra samhengi. Meðal þess sem ég hef rætt og ræddi við bókaútgefendur og vil láta skoða er hvað hægt sé að gera innan þeirra fjárhagslegu og skipulagslegu ramma sem við höfum í dag og kanna hvort við getum ekki með einhverjum hætti nýtt betur það fjármagn sem við höfum þó úr að spila eða breytt regluverki. Það þarf að skoða sömuleiðis hvernig staðið er að útgáfu námsefnis en ríkið er mjög fyrirferðarmikið á þeim vettvangi eins og fólk þekkir. Sú athugun er í undirbúningi. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að ríkið færi útgáfu námsefnis í auknum mæli til sjálfstæðra útgefenda sem gegna mikilvægu menningarhlutverki með fjölbreyttri útgáfustarfsemi. Raunar er í bókmenningarstefnu sem Félag bókaútgefenda hefur sett getið um þetta. Þar er mjög skýr krafa um að bókaútgefendur vilja auka samstarf við Menntamálastofnun, við almenn útgáfufyrirtæki og láta reyna á það af alvöru að afnema einokun ríkisins á útgáfu námsbóka fyrir grunnskólamarkaðinn á Íslandi, eins og segir í bókmenningarstefnu þeirra sjálfra. Þeir hafa sett sér mjög metnaðarfulla stefnu í þrettán liðum þar sem ýmsar aðgerðir eru tilgreindar. Við fórum lauslega í gegnum það á þeim fundi sem ég vitnaði til hér áðan. Ég vænti þess að þeir muni koma til baka til mín með ákveðnar hugmyndir sem ég óskaði eftir að þeir reyndu að setja í orð.

Hvert ber að líta til fyrirmynda? Þeir hafa horft mjög til Noregs. Þar hafa frændur vorir unnið mjög skemmtilegt verk á þessu sviði. Ég held að við getum horft þar vel til fyrirmynda. Þar er t.d. í gildi ákveðinn innkaupasamningur þar sem norsk stjórnvöld skuldbinda sig til að kaupa beint af útgefendum ákveðið efni. Það er samningur á milli bókaútgefenda og bóksala sem er endurnýjaður reglulega með aðkomu stjórnvalda. Í dag er ekkert samningssamband þarna á milli, sem er grundvallaratriði þegar við erum með 40 forlög og þar af eitt (Forseti hringir.) burðarforlag og staðan á sölunni á markaði er álíka skekkt. Þannig að það er af mörgu að taka í þessum efnum.