146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

starfsumhverfi bókaútgáfu.

139. mál
[18:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna. Til viðbótar við það sem ég áður nefndi varðandi þessa varðstöðu um íslenska tungu, móðurmálið okkar, er verkefni í gangi sem snýr að máltækni, sem er gríðarlega mikilvægt. Allir aðilar samfélagsins sem láta sig þetta einhverju varða, tungumálið okkar, hafa lýst sig reiðubúna til að koma að því verki. Á sumum sviðum eru menn að taka til og gyrða sig í brók, eins og sagt hefur verið oft og tíðum, með miklar heitstrengingar um að treysta varðstöðuna um móðurmálið. Það er vel.

Það er á engan hátt hugsun mín að eitt dæmi, að breyta útgáfu námsbóka, greiði úr öllum þessum vanda. Það er langur vegur frá. Þetta er eitt af þeim dæmum sem bókaútgefendur í landinu hafa löngum haldið fram stíft og mér finnst sjálfsagt að skoða. Það vill einfaldlega svo til að þetta fellur saman við áherslurnar í stjórnarsáttmálanum.

Það er rétt að það kostar að viðhalda tungumálinu. Það kostar að viðhalda byggð í landinu. Það eru hins vegar forréttindi að fá að búa á Íslandi. Það eru líka forréttindi að fá að tjá sig og skapa á íslensku. Það er skylda okkar að standa vörð um það. Ef menn eru að tala um að hækka enn frekar virðisaukaskatt á þessa starfsemi, bókaútgáfuna, þá er ég sammála hv. málshefjanda að við verðum þá að mæta því með einhverjum hætti. Ég held að við séum alveg á þolmörkum þess sem við erum að gera í dag. Það er (Forseti hringir.) þá sérstakt verkefni að takast á við, ef við göngum til þess verks að einfalda virðisaukaskattskerfið, sem ég tel raunar löngu tímabært. En þá verðum við að mæta áhrifunum af því með einhverjum öðrum hætti ef áformin verða þessi.