146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með að hæstv. ráðherra skuli ekki ætla að nýta sér þá miklu þekkingu og starfsgetu sem er innan hv. Alþingis og t.d. hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem ég sit í. Hæstv. ráðherra segir að undanfarna daga hafi staðið yfir vinna við þá forgangsröðun og út frá öryggismálum og fleiru. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefðum glöð tekið þátt í þeirri vinnu með ráðherranum þannig ég lýsi yfir vonbrigðum með að við höfum ekki verið beðin um aðstoð. Þetta er í annað skipti í dag sem hæstv. ráðherra vísar í afgreiðslu fjárlaga og fríar sig eiginlega ábyrgð á samgönguáætlun sem samþykkt var hér á síðustu dögum síðasta þings. Ég veit ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi tekið þátt í þeirri afgreiðslu á þeirri samgönguáætlun og viðbótum við hana og jafnvel greitt atkvæði með henni, ef ég man það rétt. Fjárlögin voru samþykkt með 27 atkvæðum. Hæstv. ráðherra er einn þeirra sem greiddu þeim atkvæði sitt. Hæstv. ráðherra samþykkti því (Forseti hringir.) viðbæturnar á síðast þingi. Hæstv. ráðherra samþykkti svo fjárlögin. Það gerði ég til að mynda ekki, hvorugt.